Gat keypt vopn vegna kerfisgalla

Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu.
Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu. AFP

Kerfisgalli varð til þess að Dylann Roof, sem hefur verið ákærður fyrir fjöldamorð í kirkju í Charleston í Suður Karólínu í Bandaríkjunum í síðasta mánuði, gat keypt sér byssu.

Forstjóri alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) greindi frá þessu í dag. Að sögn James Comey, forstjóra FBI, hefði Roof átt að vera stöðvaður í því að kaupa sér byssu vegna fyrri ákæru.

En nú hefur komið í ljós að ákæran var annað hvort sett vitlaust inn í bakgrunnskerfi lögreglunnar eða mistök gerð við greiningu hennar.

BBC segir frá þessu.

Roof hefur verið ákærður fyrir að myrða níu manns í kirkju 17. júní síðastliðinn. Talið er að Roof hafi myrt fólkið vegna kynþáttafordóma en öll fórnarlömb hans voru þeldökk.

Roof sem er 21 árs, var ákærður fyrir vörslu eiturlyfja aðeins nokkrum vikum fyrir árásina í síðasta mánuði. Að sögn lögreglu játaði Roof glæp sinn og hefði það átt að vera nóg til þess að hindra það að Roof gæti keypt vopn.

Að sögn Comey komst hann að þessum mistökum í gærkvöldi og funda yfirmenn FBI  með ættingjum fórnarlamba Roof í dag. Kerfið sem notast er við þegar bakgrunnur fólks er athugaður verður nú rannsakað.

„Okkur finnst hræðilegt að þetta hafi gerst. Við vildum óska þess að við gætum farið aftur í tímann,“ sagði Comey í dag.

Roof var handtekinn daginn eftir árásina í um 320 kílómetra fjarlægð frá Charleston. Gert er ráð fyrir því að réttarhöld yfir honum hefjist í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert