Oskar Gröning, fangavörður í útrýmingarbúðum nasista, Auschwitz, í seinni heimstyrjöldinni, var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Saksóknari hafði farið fram á að hann yrði dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi.
Gröning, sem er 94 ára, var ákærður fyrir að bera ábyrgð á morðum á 300 þúsund manns í fangabúðunum.
Ólíkt flestum öðrum fangavörðum SS þá hefur Gröning, sem var nefndur „bókari Auschwitz“, rætt um hvað hann gerði og hvað hann sá á meðan helförinni stóð.
Gröning var tvítugur að aldri þegar hann bauð sig fram til starfa fyrir Waffen SS enda heillaður af SS búningunum og ákafanum sem fylgdi stríðinu árið 1941.
Hans helsta starf í Auschwitz var að flokka peninga sem stolið var frá gyðingum sem teknir voru af lífi eða notaðir í þrælahaldi búðanna. Pólsk slot, grískar drakkmör, franskri frankar, hollensk gyllini og ítalskar lírur.
Gröning fæddist árið 1921 skammt frá Bremen og fjölskylda hans var afar þjóðrækin. Hann missti móður sína fjögurra ára gamall og ólst upp hjá föður sem var félagi í hernaðarhóp sem nefndist Der Stahlhelm, eða Stálhjálmurinn. Gröning gekk til liðs við ungliðahreyfingu þar sem andúð á gyðingum var alls ráðandi.
Hann segist hafa óskað eftir því að vera fluttur í fremstu víglínu en verið synjað. Því var hann áfram vörður í útrýmingarbúðunum þar sem sem hermenn eyddu kvöldunum við spilamennsku og drykkju og gerðu stundum að leik sínum að skjóta ljósaperur í stað þess að slökkva ljósið með hefðbundnum hætti. Í september 1944 var hann sendur til Ardennes að berjast við bandamenn.
Þegar hann snéri heim aftur eftir að hafa verið stríðsfangi í Bretlandi, kvæntist hann og eignaðist tvo syni. Hann starfaði við launaútreikninga í glerverksmiðju. En fortíðin bankaði á dyr árið 1985 er félagi hans í frímerkjasafnaraklúbbi færði honum bók sem skrifuð var af manni sem neitaði tilvist helfararinnar.
Gröning skilaði bókinni með eftirfarandi skilaboðum: „Ég sá allt. Gasklefana, líkbrennslur, val á fórnarlömbum... Ég var þar.“
Í kjölfarið skrifaði hann endurminningar fyrir fjölskylduna þar sem hann deildi með þeim því sem hann upplifði. Endurminningarnar, sem eru 87 blaðsíður að lengd, rötuðu síðan í hendur þýskra fjölmiðla og í heimildarmynd BBC árið 2003.
„Ég myndi lýsa mínu hlutverki sem litlu tannhjóli í gangskiptingu,“ útskýrir Gröning. „Ef þú getur lýst þessu sem sök þá er ég sekur. Lagalega séð er ég saklaus.“
Það hefur hins vegar nú komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér. Hann er væntanlega einn sá síðasti sem verður dæmdur fyrir þau voðaverk sem framin voru á tímum helfararinnar.
„Mér þykir þetta leitt“
Réttarhöldin hafa staðið yfir í Lüneburg frá því í apríl. Í gær fékk Gröning síðasta tækifærið til að tjá sig um hlut sinn við réttarhödlin. Hann baðst afsökunar á hlut sínum og sagði að enginn hefði átt að taka þátt í því sem fram fór í Auschwitz. „Ég veit það. Ég harma það í einglægni að hafa áttað mig á þessu fyrr og oftar. Mér þykir þetta leitt,“ sagði hann titrandi röddu.
Hópur fólks sem lifði af helförina sendi frá sér tilkynningu eftir að dómur féll í morgun þar sem niðurstöðunni var fagnað.
Gröning bar við réttarhöldin að honum hryllti við þeim glæpum sem hann hafði orðið sjónarvottur að í búðunum og hann hafi í þrígang, frá því hann kom þangað 1942, óskað eftir því að vera fluttur í fremstu víglínu. Hann fékk ekki heimild til þess fyrr en haustið 1944.
Um 1,1 milljón manna, flestir evrópskir gyðingar, hurfu á árunum 1940 til 1945 í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum.