Morðinginn var 20 ára háskólanemi

Fólk syrgir hina látnu í jarðarför sem fram fór fyrr …
Fólk syrgir hina látnu í jarðarför sem fram fór fyrr í dag. AFP

Borin hafa verið kennsl á manninn sem framdi sjálfsmorðssprengjuárás í tyrkneska bænum Suruc á mánudag. 32 létust í árásinni auk morðingjans, 20 ára háskólanemans Seyh Abdurrahman Alagoz.

Alagoz kom frá héraðinu Adiyaman sem er í Suðaustur-Tyrklandi. Hefur hann verið tengdur við samtökin Íslamskt ríki af fjölmiðlum þar í landi.

Tveir tyrkneskir lögreglumenn fundust myrtir í dag í bænum Ceylanpinar, nærri landamærunum við Sýrland. Fundust þeir með skotsár í húsi sem þeir deildu í bænum, sem er í sama héraði og Suruc.

Verkamannaflokkur Kúrdistan, PKK, hefur lýst ábyrgð sinni á morðunum og segir flokkurinn að með þeim sé hefnt fyrir fjöldamorðin í Suruc. Eru lögreglumennirnir sakaðir um að hafa unnið með Íslömsku ríki.

Sprengingin á mánudag varð 32 að bana eins og áður sagði, en auk þess særðust í kringum hundrað til viðbótar. Er árásin sú mannskæðasta í Tyrklandi síðustu ár.

Fórnarlömbin voru mestmegnis háskólanemendur sem voru að halda blaðamannafund þegar sprengingin átti sér stað. Hugðist hópurinn ferðast til Sýrlands og reyna að endurbyggja borgina Kobane, sem hefur verið vígvöllur íslamista og Kúrda undanfarin misseri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert