Dansa „Orminn langa“ fram á nótt

Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum.
Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Færeyingar halda um þessar mundir upp á Ólafsvöku sem nær hápunkti í dag á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Er þjóðhátíðardagurinn kenndur við Ólaf helga Haraldsson sem var Noregskonungur frá 1015-1028 og lést þann 29. júlí 1030. Á hátíðin rætur sínar að rekja til miðalda þegar Færeyjar lutu stjórn Norðmanna. 

Þórður Bjarni Guðjónsson er ræðismaður Íslendinga í Færeyjum. Hann var einmitt á leið niður að Vaglinum, torginu þar sem þinghúsið og ráðhúsið í Þórshöfn er staðsett, til þess að fylgjast með hátíðarhöldunum. 

Róðrakeppni og þingsetning

Þótt Ólafsvaka standi formlega aðeins yfir í tvo daga er að sögn Þórðar um nær viku hátíðarhöld að ræða. „Dagskráin hófst í raun þann 25. júlí og stendur út vikuna. Klukkan 14 í gær komu fulltrúar íþróttahreyfinganna og félagasamtaka saman og gengu í skrúðgöngu niður að Vaglinum. Þar var svo haldin setningarræða Ólafsvöku. Síðan eru opin hús, listasýningar og um kvöldið eru svo úrslitin í stórri róðrakeppni,“ segir Þórður en róðrakeppnin á sér langa hefð. Vikurnar fyrir Ólafsvöku eru haldnar undankeppnir í bæjum landsins og svo koma þeir bestu saman og berjast um titilinn í Þórshöfn á Ólafsvöku. Er keppt í mörgum aldursflokkum og í kvenna- og karlaflokki. „Sjórinn er það nálægt hérna í Færeyjum að þúsundir manna mæta til þess að fylgjast með,“ segir Þórður.

Í dag er svo Ólafsvökudagurinn sjálfur. Þá hefja þingmennirnir daginn á messu og ganga svo fylktu liði í Vaglinn við þinghúsið. Lögmaður Færeyja setur þingið á hverju ári á Ólafsvökudaginn. Færeyingar bíða spenntir eftir ræðu hans í dag þar sem talið er að hann muni boða til kosninga því samkvæmt lögum verða kosningar að fara fram í landinu fyrir 29. október. 

Koma saman í þjóðbúningum

„Þetta er tíminn sem fjölskyldur koma saman, meðal annars brottfluttir Færeyingar. Maður sér það hérna að þetta er mjög skemmtileg hefð á ákveðnum stöðum að ættmóðirin setur upp hlaðborð og svo ganga ættingjar og vinir á milli húsa og gæða sér á færeyskum kræsingum hjá hvorum öðrum. Það sem er svo hátíðlegt líka við þessa daga er að menn mæta í þjóðbúningnum. Það er mjög skemmtilegur búningur og þetta verður mjög hátíðlegt að sjá þúsundir karla og kvenna í búningnum, og mikil stemning sem fylgir því,“ segir Þórður.

Í kvöld klukkan 11 koma svo Færeyingar svo saman í Þórshöfn. Hitar þar hjálpræðisherinn upp áður en svokallaður „miðnáttarsöngur“ hefst á miðnætti. „Svo er bara brostið út í dans og dansaður er ormurinn langi langt fram eftir nóttu, en það er þjóðdans Færeyinga. 

Frá skrúðgöngu á Ólafsvöku.
Frá skrúðgöngu á Ólafsvöku. Mynd/Wikipedia
Þórður Bjarni Guðjónsson ræðismaður Íslands í Færeyjum.
Þórður Bjarni Guðjónsson ræðismaður Íslands í Færeyjum. Mynd/Iceland.is
Frá róðrakeppni í Þórshöfn á Ólafsvöku árið 2010.
Frá róðrakeppni í Þórshöfn á Ólafsvöku árið 2010. Mynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert