Saksóknari hefur áfrýjað dómi yfir hlauparanum Oscar Pistorius en hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að skjóta Reeva Steenkamp, þáverandi unnustu hans, til bana.
Pistorius hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi talið að Steenkamp væri innbrotsþjófur. Hann skaut fjórum skotum á lokaðar baðherbergisdyr. Á baðherberginu var Steenkamp hins vegar og varð fyrir skotunum. Dómurinn var kveðinn upp í fyrra en Pistorius verður látinn laus úr fangelsi á föstudag.
Saksóknari fer fram á að hlauparinn verði dæmdur fyrir morð en verjendur hans þurfa að svara áfrýjuninni fyrir 17. september. Talið er að áfrýjunin verði tekin fyrir í nóvember. Ef áfrýjunardómstóll fellst á að Pistorius sé sekur um morð þá verður hann væntanlega dæmdur í fimmtán ára fangelsi.