Að hluta Pólverjum að kenna

Winston Churchill virðir fyrir sér pólska hersveit.
Winston Churchill virðir fyrir sér pólska hersveit. Ljósmynd/Wikipedia

Sendiherra Rússlands í Póllandi hefur sagt að stjórnvöld í Varsjá hafi að hluta borið ábyrgð á seinni heimstyrjöldinni. Ummælin hafa verið harkalega gagnrýnd í Póllandi, en ekkert land missti fleiri íbúa í styrjöldinni.

Sergei Andreev sakaði pólsk stjórnvöld um að hafa komið í veg fyrir að bandalag væri stofnað gegn nasistum og þannig væru það að hluta þeim að kenna hvernig fór. Sendiherrann reyndi einnig að réttlæta innrás Sovétmanna inn í Pólland eftir að Hitler og Stalín höfðu komist að leynilegu samkomulagi um að deila landinu á milli sín, og sagði það hafa verið nauðsynlegt til að tryggja öryggi Sovétríkjanna.

Andreev sagði einnig að ákvörðun Sovétmanna um að brjóta á bak aftur pólsku andstöðuna þegar stríðinu lauk hefði komið til vegna þarfarinnar til að hafa „vinsamlegt ríki við landamærin“.

Eins og nærri má geta hafa stjórnvöld í Póllandi brugðist ókvæða við orðum sendiherranns, sem þau segja munu hafa skemmandi áhrif á samskipti ríkjanna.

„Frásögn æðsta fulltrúa rússneska ríkisins í Póllandi er á skjön við sögulegan sannleik og styðst við ósanna túlkun atburða, líkt og tíðkaðist á árum stalínismans og kommúnismans,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Póllands.

Utanríkisráðherrann, Grzegorz Schetyna, sagðist myndu kalla sendiherrann á teppið á mánudag.

Stjórnvöld mótmæltu einnig harðlega tilraunum Andreev til að réttlæta aðgerðir hinna sovésku „frelsara“; handtökur, brottflutninga og aftökur á Pólverjum. Þau sögðu orð hans bera vott um virðingarleysi gagnvart fórnarlömbum leynilögreglunnar.

Þegar forsætisráðherrann Ewa Kopacz var spurð út í ummæli sendiherrans, svaraði hún: „Jafnvel börn í Póllandi vita að hvorki Ribbentrop né Molotov voru pólskir“, og vísaði þar til áðurnefnds samkomulags milli utanríkisráðherra Þýskalands og Sovétríkjanna.

Fleiri en 200.000 pólskir hermenn voru sendir í búðir í Síberíu eftir að Rauði herinn réðist inn í Pólland í september 1939, og 20.000 voru myrtir, flestir í Katyn. Stjórnvöld í Moskvu kenndu nasistum um morðin þar til Berlínarmúrinn féll árið 1989.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert