Átti 13 byssur og með leyfi fyrir öllum

Chris Harper Mercer, sem skaut níu til bana í Umpqua háskólanum í Oregon í fyrradag átti þrettán vopn og voru þau öll fengin með löglegum hætti.

Að sögn lögreglu var hann með sex byssur á sér þegar hann kom í skólann og hóf skothríð. Fórnarlömb hans eru á aldrinum 18 til 67 ára. Lögregla felldi fjöldamorðingjann í skotbardaga í skólanum. 

BBC hefur rætt við fólk sem lifði árásina af, þar á meðal læknanemann Sharon Kirkham en vinkona hennar, Kim, lést í fanginu á henni eftir að hafa verið skotin þrisvar sinnum. „Ég heyrði hana reyna að ná andanum en ég gat ekki bjargað henni,“ segir Kirkham í viðtali við BBC. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ítrekaði ummæli sín varðandi byssueign Bandaríkjamanna og ofbeldið sem henni fylgir í gær. Hvetur hann almenning til þess að þrýsta á stjórnmálamenn um að koma á breytingum á vopnalöggjöf landsins. 

Samkvæmt Los Angeles Times var Mercer samnemandi margra þeirra sem hann skaut til bana. Elsta fórnarlambið, Larry Levine, var stundakennari í ensku en hann kenndi við Umpqua í mörg ár til þess að fjármagna sína helstu ástríðu, fluguveiðar í Umpqua ánni og skrif um útivist.

Auk Levine létust þessi í árásinni: Lucero Alcaraz, 19; Quinn Glen Cooper, 18; Kim Saltmarsh Dietz, 59, Lucas Eibel, 18, Jason Johnson, 33, Sarena Dawn Moore, 44, Rebecka Ann Carnes, 18, og Treven Taylor Anspach, 20 ára.

Mercer, sem var 26 ára að aldri, hefur verið lýst sem hatursfullum manni með ofurtrú á hvíta kynstofninn en um leið fullur hatri gegn trú. Hann hafði glímt við geðræn vandamál, samkvæmt heimildum LAT.

Fjölskylda Chris Harper-Mercer er algjörlega miður sín en hann var mjög tengdur móður sinni og bjó með henni. 

Einrænn og bjó með móður sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert