Bretland er útflutningsríki og tengsl landsins við ríki um allan heim skipta meira máli en hvort það verður áfram innan Evrópusambandsins eða ekki. Þetta er haft eftir Jeff Immelt, forstjóra og stjórnarformanni bandaríska stórfyrirtækisins General Electric, í viðtali við breska dagblaðið Daily Telegraph, en fyrirtækið er með viðamikla starfsemi í Bretlandi. Immelt segir að í raun skipti engu að hans mati hvort Bretar verði áfram innan sambandsins eða ekki.
Immelt segir ennfremur í viðtalinu að innri markaður Evrópusambandsins eigi líklega aldrei eftir að verða fullkomlega samræmdur með sama hætti og raunin sé í Bandaríkjunum vegna þess hversu ólík ríki sambandsins séu innbyrðis. Hann eigi að minnsta kosti ekki von á því á meðan hann lifi. „Við höfum mikla starfsemi í Bretlandi og við flytjum mikið út þaðan. Fyrir vikið er mikilvægt að Bretland hafi góð tengsl um allan heim, en ég held alls ekki að staða landsins innan Evrópusambandsins skipti svo miklu máli.“
Miklar umræður eiga sér stað í Bretlandi um framtíðartengslin við Evrópusambandið en David Camreon, forsætisráðherra landsins, hefur boðað þjóðaratkvæði um veru Breta í sambandinu fyrir árslok 2017.