Fleiri Bretar eru hlynntir því að yfirgefa Evrópusambandið en vera þar áfram samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Þetta kemur fram á breska fréttavefnum City A.M. í dag. Þetta er fyrsta könnunin sem gerð er eftir að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, opinberaði kröfur sínar um breytt tengsl landsins við sambandið.
Til stendur að breskir kjósendur kjósi fyrir árslok 2017 í þjóðaratkvæði um breytt tengsl við Evrópusambandið eða úrsögn úr sambandinu en áður en kosningin fer fram hyggst Cameron semja um slík breytt tengsl við ráðamenn í Brussel og leiðtoga annarra ríkja ESB. Samkvæmt könnuninni vilja 53% úr sambandinu en 47% vera þar áfram.
Fram kemur í fréttinni að forskot þeirra sem vilja úr Evrópusambandinu hafi ekki áður verið jafn mikið. Erfiðlega gæti gengið fyrir Cameron að ná samkomulagi við ESB um breytt tengsl, segir í fréttinni, en jafnvel þó það takist kann það ekki að vera nóg til að sannfæra meirihluta breskra kjósenda um að rétt sé að vera áfram innan sambandsins.
Einungis 22% telja líklegt að Cameron takist að landa góðu samkomulagi við Evrópusambandið samkvæmt könnuninni og 23% segjast telja aðra leiðtoga innan sambandsins taka kröfur hans alvarlega. Könnunin var gerð af fyrirtækinu Survation. Önnur könnun frá fyrirtækinu ICM fyrr í vikunni sýndi hins vegar 46% hlynnt áframhaldandi veru í ESB en 38% andvíg.