Vilja stöðva bálför transkonu

Strangtrúaðir gyðingar mótmæla Gay Pride-göngu í Jerúsalem árið 2013. Myndin …
Strangtrúaðir gyðingar mótmæla Gay Pride-göngu í Jerúsalem árið 2013. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AHMAD GHARABLI

Strangtrúuð fjölskylda ísraelskrar transkonu reynir nú að koma í veg fyrir að lík hennar verði brennt þrátt fyrir að konan hafi óskað sérstaklega eftir bálför í erfðaskrá sinni. Fjölskyldan telur bálfarir stangast á við trú sína og hún hafði ekki verið í sambandi við konuna lengi.

May Peleg var 31 árs gömul og var formaður framkvæmdanefndar samfélagsmiðstöðvar samtaka LGBT-fólks í Jerúsalem. Hún framdi sjálfsvíg um helgina en í erfðaskrá sem hún lét gera kom skýrt fram að hún vildi að líkið yrði brennt.

Móðir hennar vildi hins vegar ekki sætta sig við þá niðurstöðu og fór með málið fyrir dómstóla. Sjálfsvíg og bálfarir eru ekki heimilar í gyðingatrú. Vísaði móðirin ætíð til Peleg sem karlmanns í dómskjölum og krafðist þess að útförin færi fram eftir lögmálum gyðinga. Líta ætti fram hjá vilja Peleg vegna þess að hún hafi átt við „djúpstæð geðræn vandamál“ að stríða.

Sjálf skrifaði Peleg í eiðsvarinni yfirlýsingu fyrir andlát sitt að hún óttaðist að móðir hennar kæmi til með að krefjast trúarlegrar útfarar fyrir hana, að því er ísraelska blaðið Haaretz greinir frá.

„Ég er úr bókstafstrúarfjölskyldu og greftrun sonar míns er mér afar mikilvæg,“ segir blaðið að móðirin hafi skrifað til dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka