30 látnir eftir skriðufall í Búrma

Hermenn flytja hina látnu á brott.
Hermenn flytja hina látnu á brott. AFP

Að minnsta kosti 30 létust þegar skriða féll á námusvæði norðanverðu Búrma. Fólkið var að fara í gegnum hauga af úrgangi í leit að jaði, verðmætasta stein landsins. Fleiri er saknað en slysið átti sér stað í Hpakant í ríkinu Kachin á laugardag.

Fregnir herma að björgunarmenn vinni enn að því að grafa sig í gegnum úrganginn og óttast er að fjöldi látinna muni aukast. Skriðuföll eru þekkt hætta á svæðum þar sem fólk hefur lifibrauð sitt af því að fara í gegnum námuúrgang, margir í þeirri von um að finna jaðisteina sem ganga kaupum og sölum fyrir þúsundir dala.

Jaði er nær eingöngu að finna í Búrma og er það jarðefni sem Kínverjar meta hæst. Íbúar Hpakant kvarta hins vegar sárum vegna námuiðnaðarins á svæðinu, m.a. hárri slysatíðni og landupptöku.

Farandverkamenn flykkjast til Hpakant vegna fyrirheita um ríkidæmi en verða margir fórnarlömb eiturlyfja á borð við heróín, sem eru ódýr á götunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert