Fjallar um sértækar aðgerðir

Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hlýddi í dag á málflutning í dómsmáli er varðar sértækar aðgerðir (e. affirmative action) við inntöku nema í háskólanám. Sækjandinn í málinu er 25 ára hvít kona, sem var hafnað um pláss við University of Texas á grundvelli sértækra aðgerða árið 2008.

Lögmenn Abigail Fisher segja reglur skólans, sem kveða á um forgang svartra og einstaklinga af rómönskum uppruna, brjóta gegn stjórnarskránni. Hæstiréttur tók málið fyrst fyrir árið 2012 en ákvað að vísa því aftur til undirréttar með þeim fyrirmælum að taka það til ítarlegrar skoðunar hvort háskólanum væri heimilt að horfa til kynþáttar í umsóknarferlinu.

Áfrýjunardómstóllinn komast að þeirri niðurstöðu að reglur skólans stæðust lög og því rataði málið aftur til hæstaréttar, sem hefur áður úrskurðað gegn sértækum aðgerðum.

Frá því að dómstóllinn fjallaði fyrst um málið hefur deilan um sértækar aðgerðir í háskólum harðnað. Lögmenn Fisher hafa t.d. höfðað tvö önnur mál, gegn Harvard University og University of North Carolina, en þau varða nema af asískum uppruna sem segja reglurnar hafa komið niður á sér.

Núverandi tilhögun mála má rekja til dóms sem féll árið 1978, þar sem hæstiréttur úrskurðaði að kvótar væru ólögmætir en heimilaði að litið væri til kynþáttar við ákvörðun um inntöku, til að tryggja fjölbreytileika.

Reuters sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert