Kveikt í bandarískri mosku

AFP

Rannsókn er hafin á eldsvoða í mosku í bænum Coachella í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum í gær en talið er hugsanlegt að um íkveikju hafi verið að ræða. Starfsmenn moskunnar hafa greint bandarískum fjölmiðlum frá því að eldsprengju hafi verið kastað að moskunni.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn samkvæmt frétt AFP og engin meiðsl urðu á fólki. Einungis níu dagar eru síðan kona og karlmaður myrtu 14 manns og særðu 22 í skotárás í borginni San Bernardino í Kaliforníu-ríki sem bandarísk yfirvöld hafa skilgreint sem hryðjuverkaárás.

Konan og karlmaðurinn, sem létu lífið í skotbardaga við lögreglu, voru múslimar og er talið mögulegt að tengsl séu á milli eldsvoðans í moskunni og skotárásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert