Hellti sér yfir Hitler

Adolf Hitler skoðar landakort með herforingjum sínum.
Adolf Hitler skoðar landakort með herforingjum sínum. Ljósmynd/Bundesarchiv

Þýski hers­höfðing­inn Dietrich von Saucken er einn fárra ein­stak­linga sem vitað er um að hafi hellt sér yfir nas­ista­for­ingj­ann Ad­olf Hitler eft­ir að sá síðar­nefndi varð ein­ræðis­herra Þýska­lands. Það sem meira er þá komst hann upp með það.

Von Saucken átti að baki lang­an og far­sæl­an fer­il í þýska hern­um. Hann barðist í fyrri heims­styrj­öld­inni og særðist þar sam­tals sjö sinn­um og var heiðraður í sam­ræmi við það. Hann hélt áfram í hern­um eft­ir að styrj­öld­inni lauk og þegar síðari heims­styrj­öld­in braust út 1939 hafði hann náð of­urstatign. Von Saucken var af prúss­nesk­um ætt­um og var fædd­ur í bæn­um Fischhausen í Aust­ur-Prússlandi sem á þeim tíma var hluti þýska keis­ara­dæm­is­ins en er í dag er hluti af Rússlandi og ber heitið Primorsk.

Von Saucken tók þátt í fjöl­mörg­um orr­ust­um í síðari heims­styrj­öld­inni og hlaut fjöl­mörg heiðurs­merki fyr­ir frammistöðu sína. Hann hafði það orðspor að reyna að lág­marka mann­fall á meðal her­manna sinna eins og hann frek­ast gæti. Þegar komið var fram í fe­brú­ar árið 1945 hafði von Saucken verið gerður að hers­höfðingja. Hann var þá tíma­bundið leyst­ur frá störf­um eft­ir að hafa lýst því yfir að til­gangs­laust væri að halda stríðinu áfram.

Barði í borðið fyr­ir fram­an Hitler

Skömmu síðar var von Saucken þó kallaður aft­ur til herþjón­ustu og falið að verja Prúss­land fyr­ir Rúss­um. Hann var boðaður á fund með Hitler. Hers­höfðing­inn sýndi Hitler áber­andi fyr­ir­litn­ingu á fund­in­um. Mætti meðal ann­ars með sverð sitt á hann, sem óheim­ilt var í návist ein­ræðis­herr­ans, og heilsaði að her­mannasið en ekki með nas­ista­kveðju eins og gert hafði verið að skyldu árið áður í kjöl­far mis­heppnaðs til­ræðis þýskra her­for­ingja við Hitler.

Hitler fól von Saucken verk­efnið að verja Prúss­land og að hann myndi taka við fyr­ir­skip­un­um frá full­trúa nas­ista­flokks­ins á svæðinu. Hers­höfðing­inn brást hinn versti við þessu en ein­ræðis­herr­ann var of upp­tek­inn við að skoða landa­kort til að taka eft­ir því. Von Saucken barði þá í borðið og sagði: „Ég hef ekki í hyggju, herra Hitler, að taka við skip­un­um frá nas­ista­for­ingja.“ Hægt var að heyra nál falla í fund­ar­saln­um eft­ir þessi orð hers­höfðingj­ans.

Með þessu neitaði von Saucken að fram­fylgja beinni fyr­ir­skip­un frá Hitler. Þýsk­ir her­for­ingj­ar höfðu verið hand­tekn­ir og jafn­vel skotn­ir fyr­ir minni sak­ir en það. Með því að skír­kota til ein­ræðis­herr­ans sem „herra Hitlers“ í stað þess að segja „for­ingi minn“ eins og skylt var að gera móðgaði von Saucken Hitler enn­frem­ur frammi fyr­ir öðrum her­for­ingj­um sem viðstadd­ir voru. En Hitler lét nægja að svara: „Gott og vel Saucken, farðu með stjórn­ina sjálf­ur.“

Send­ur í þrælk­un­ar­vinnu í Síberíu

Því næst benti Hitler von Saucken að fara sem hers­höfðing­inn gerði. Von Saucken varðist á meðan hann gat í Prússlandi en gafst síðan upp fyr­ir Rúss­um dag­inn eft­ir að til­kynnt var um al­menna upp­gjöf Þýska­lands í byrj­un maí­mánaðar 1945. Hon­um var ít­rekað fyr­ir­skipað að flýja und­an sókn Rússa og skilja her­menn sina eft­ir en neitaði því. Und­ir lok­in var flug­vél sér­stak­lega send til þess að koma hon­um und­an en hann sendi hana til baka með særðum her­mönn­um.

Von Saucken var ít­rekað yf­ir­heyrður af Rúss­um í kjöl­far þess að þeir tóku hann hönd­um og beitt­ur of­beldi fyr­ir að neita að und­ir­rita falsaðar skýrsl­ur. Hann var send­ur í þrælk­un­ar­vinnu í Síberíu en loks lát­inn laus árið 1955. Pynt­ing­ar Rússa urðu þess vald­andi að hann var bund­inn við hjóla­stól það sem eft­ir var æv­inn­ar. Hann flutt­ist til Bæj­ara­lands þar sem hann stundaði list­mál­um. Hann lést árið 1980, 88 ára að aldri. Vefsíðan War History On­line ger­ir þessu meðal ann­ars skil.

Dæmi eru um aðra her­for­ingja sem stóðu uppi í hár­inu á Hitler þó þeir séu ekki marg­ir. Þar á meðal hers­höfðing­inn Heinz Guder­i­an sem í mars 1945 lenti í rifr­ildi við ein­ræðis­herr­ann á fundi þýska her­ráðsins en Guder­i­an var þá formaður ráðsins. Deil­an sner­ist um frammistöðu 9. hers­ins þýska und­ir for­ystu Theodors Bus­se hers­höfðingja. Hitler sakaði Bus­se um að hafa ekki staðið sig sem skyldi en Guder­i­an taldi ómak­lega að hon­um vegið. Rifr­ildið endaði með því að Guder­i­an lét af embætti sem her­ráðsformaður en hafði ekki aðrar af­leiðing­ar fyr­ir hann.

Fjallað er um orðaskipti Hitlers og Guder­i­ans í bók­inni The Last Battle eft­ir írska blaðamann­inn Cornelius Ryan sem kom út árið 1966. Bók­in var á sín­um tíma þýdd á ís­lensku og heit­ir ís­lenska þýðing­in ein­fald­lega Síðasta orr­ust­an.

Þýski hershöfðinginn Dietrich von Saucken.
Þýski hers­höfðing­inn Dietrich von Saucken. Wikipedia
Þýski hershöfðinginn Heinz Guderian.
Þýski hers­höfðing­inn Heinz Guder­i­an. Ljós­mynd/​Bundes­archiv
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert