Hellti sér yfir Hitler

Adolf Hitler skoðar landakort með herforingjum sínum.
Adolf Hitler skoðar landakort með herforingjum sínum. Ljósmynd/Bundesarchiv

Þýski hershöfðinginn Dietrich von Saucken er einn fárra einstaklinga sem vitað er um að hafi hellt sér yfir nasistaforingjann Adolf Hitler eftir að sá síðarnefndi varð einræðisherra Þýskalands. Það sem meira er þá komst hann upp með það.

Von Saucken átti að baki langan og farsælan feril í þýska hernum. Hann barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og særðist þar samtals sjö sinnum og var heiðraður í samræmi við það. Hann hélt áfram í hernum eftir að styrjöldinni lauk og þegar síðari heimsstyrjöldin braust út 1939 hafði hann náð ofurstatign. Von Saucken var af prússneskum ættum og var fæddur í bænum Fischhausen í Austur-Prússlandi sem á þeim tíma var hluti þýska keisaradæmisins en er í dag er hluti af Rússlandi og ber heitið Primorsk.

Von Saucken tók þátt í fjölmörgum orrustum í síðari heimsstyrjöldinni og hlaut fjölmörg heiðursmerki fyrir frammistöðu sína. Hann hafði það orðspor að reyna að lágmarka mannfall á meðal hermanna sinna eins og hann frekast gæti. Þegar komið var fram í febrúar árið 1945 hafði von Saucken verið gerður að hershöfðingja. Hann var þá tímabundið leystur frá störfum eftir að hafa lýst því yfir að tilgangslaust væri að halda stríðinu áfram.

Barði í borðið fyrir framan Hitler

Skömmu síðar var von Saucken þó kallaður aftur til herþjónustu og falið að verja Prússland fyrir Rússum. Hann var boðaður á fund með Hitler. Hershöfðinginn sýndi Hitler áberandi fyrirlitningu á fundinum. Mætti meðal annars með sverð sitt á hann, sem óheimilt var í návist einræðisherrans, og heilsaði að hermannasið en ekki með nasistakveðju eins og gert hafði verið að skyldu árið áður í kjölfar misheppnaðs tilræðis þýskra herforingja við Hitler.

Hitler fól von Saucken verkefnið að verja Prússland og að hann myndi taka við fyrirskipunum frá fulltrúa nasistaflokksins á svæðinu. Hershöfðinginn brást hinn versti við þessu en einræðisherrann var of upptekinn við að skoða landakort til að taka eftir því. Von Saucken barði þá í borðið og sagði: „Ég hef ekki í hyggju, herra Hitler, að taka við skipunum frá nasistaforingja.“ Hægt var að heyra nál falla í fundarsalnum eftir þessi orð hershöfðingjans.

Með þessu neitaði von Saucken að framfylgja beinni fyrirskipun frá Hitler. Þýskir herforingjar höfðu verið handteknir og jafnvel skotnir fyrir minni sakir en það. Með því að skírkota til einræðisherrans sem „herra Hitlers“ í stað þess að segja „foringi minn“ eins og skylt var að gera móðgaði von Saucken Hitler ennfremur frammi fyrir öðrum herforingjum sem viðstaddir voru. En Hitler lét nægja að svara: „Gott og vel Saucken, farðu með stjórnina sjálfur.“

Sendur í þrælkunarvinnu í Síberíu

Því næst benti Hitler von Saucken að fara sem hershöfðinginn gerði. Von Saucken varðist á meðan hann gat í Prússlandi en gafst síðan upp fyrir Rússum daginn eftir að tilkynnt var um almenna uppgjöf Þýskalands í byrjun maímánaðar 1945. Honum var ítrekað fyrirskipað að flýja undan sókn Rússa og skilja hermenn sina eftir en neitaði því. Undir lokin var flugvél sérstaklega send til þess að koma honum undan en hann sendi hana til baka með særðum hermönnum.

Von Saucken var ítrekað yfirheyrður af Rússum í kjölfar þess að þeir tóku hann höndum og beittur ofbeldi fyrir að neita að undirrita falsaðar skýrslur. Hann var sendur í þrælkunarvinnu í Síberíu en loks látinn laus árið 1955. Pyntingar Rússa urðu þess valdandi að hann var bundinn við hjólastól það sem eftir var ævinnar. Hann fluttist til Bæjaralands þar sem hann stundaði listmálum. Hann lést árið 1980, 88 ára að aldri. Vefsíðan War History Online gerir þessu meðal annars skil.

Dæmi eru um aðra herforingja sem stóðu uppi í hárinu á Hitler þó þeir séu ekki margir. Þar á meðal hershöfðinginn Heinz Guderian sem í mars 1945 lenti í rifrildi við einræðisherrann á fundi þýska herráðsins en Guderian var þá formaður ráðsins. Deilan snerist um frammistöðu 9. hersins þýska undir forystu Theodors Busse hershöfðingja. Hitler sakaði Busse um að hafa ekki staðið sig sem skyldi en Guderian taldi ómaklega að honum vegið. Rifrildið endaði með því að Guderian lét af embætti sem herráðsformaður en hafði ekki aðrar afleiðingar fyrir hann.

Fjallað er um orðaskipti Hitlers og Guderians í bókinni The Last Battle eftir írska blaðamanninn Cornelius Ryan sem kom út árið 1966. Bókin var á sínum tíma þýdd á íslensku og heitir íslenska þýðingin einfaldlega Síðasta orrustan.

Þýski hershöfðinginn Dietrich von Saucken.
Þýski hershöfðinginn Dietrich von Saucken. Wikipedia
Þýski hershöfðinginn Heinz Guderian.
Þýski hershöfðinginn Heinz Guderian. Ljósmynd/Bundesarchiv
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert