Telur að ESB gæti liðið undir lok

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands. AFP

Forseti Póllands, Andrzej Duda, hvatti Evrópusambandið í dag til þess að finna málamiðlun í viðræðum við bresk stjórnvöld svo tryggja mætti að Bretland yrði áfram í sambandinu. Mikil krísa vofði annars yfir Evrópusambandinu og jafnvel endalok þess.

„Það er ekki í þágu pólskra hagsmuna að Bretland yfirgefi Evrópusambandið,“ sagði Duda á blaðamannafundi samkvæmt frétt AFP. „Við þurfum að komast að sameiginlegri málamiðlun til að tryggja að Bretland verði áfram í sambandinu.“ Slík málamiðlun mætti þó ekki grafa undan grundvallarreglum Evrópusambandsins sem skiptu Pólverja miklu máli.

Þjóðaratkvæði er fyrirhugað í Bretlandi um veru landsins í Evrópusambandinu og kann hún hugsanlega að fara fram í sumar. Bresk stjórnvöld standa nú í viðræðum við sambandið um breytta skilamála vegna aðildar Breta. Breskir kjósendur munu síðan kjósa á milli breyttrar veru í Evrópusambandinu eða þess að yfirgefa það alfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert