Vera í ESB bjóði hættunni heim

Liam Fox, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands.
Liam Fox, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands. AFP

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands segir hryðjuverkamenn geta komið til landsins undir því yfirskini að þeir séu flóttamenn. Bretum stafaði hætta af straumi hælisleitenda og flóttamanna til Evrópu og afleiðingar hans gætu þannig orðið miklu verri en árásirnar sem konur urðu fyrir í borginni Köln í Þýskalandi um áramótin.

Þetta kemur fram í viðtali breska dagblaðsins Daily Telegraph við Liam Fox en þar segir hann að Bretar þurfi að endurheimta sjálfstæði sitt og segja skilið við Evrópusambandið til þess að koma í veg fyrir að þessi staða geti komið upp. Segir hann út í hött að halda því fram, líkt og David Cameron forsætisráðherra Bretlands hafi gert, að vera Breta í Evrópusambandinu styrkti þjóðaröryggi þeirra. Bretlandi stafaði hætta af veru sinni í sambandinu af fjölmörgum ástæðum. Þar á meðal vegna efnahagskrísunnar á evrusvæðinu.

Fox segir yfirvöld í Grikklandi og á Ítalíu ekki hafa hugmynd um það hvaða fólk væri að koma til landa þeirra með bátum frá Tyrklandi og yfir Miðjarðarhafið. Hvort um væri að ræða flóttamenn, hælisleitendur, fólk að flýja bág kjör eða hryðjuverkamenn sem héldu því fram að þeir væru flóttamenn eða hælisleitendur. Hafnar hann því að um hræðsluáróður sé að ræða. Þjóðverjar hafi ekki vitað hverju þeir væru að bjóða heim og sama yrðu raunin með Breta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka