Stóraukinn stuðningur við úrsögn

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Stuðningur við að Bretland yfirgefi Evrópusambandið hefur stóraukist í kjölfar þess að drög að samkomulagi á milli breskra stjórnvalda og ráðamanna í Brussel um breytingar á forsendum fyrir veru landsins í sambandinu voru gerð opinber.

Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Times þar sem vísað er í niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov gerði fyrir blaðið. Samvæmt henni eru nú 45% Breta hlynnt því að segja skilið við Evrópusambandið en 36% vilja vera áfram innan þess. Fram kemur að sé aðeins miðað við þá sem taka annað hvort afstöðu með eða á móti áframhaldandi veru í sambandinu vilji 56% yfirgefa það en 44% vera um kyrrt.

Síðasta skoðanakönnun YouGov var gerð í lok janúar en þá voru 42% hlynnt því að yfirgefa Evópusambandið en 38% vildu vera áfram innan þess. Einnig var spurt í könnuninni nú um afstöðu fólks til draganna og sögðust 22% vera sátt við þau en 56% að þau fælu ekki í sér nógu miklar breytingar. Könnunin náði til 1.675 manns og var gerð dagana 3. og 4 febrúar. Samkomulagsdrögin voru gerð opinber 2. febrúar.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert