Er heimavinna bara tímaeyðsla?

Heimavinna er sögð taka í burtu dýrmætan tíma sem börn …
Heimavinna er sögð taka í burtu dýrmætan tíma sem börn gætu eytt með fjölskyldu og vinum. mbl.is/Kristinn

Börn í þróuðum löndum eyða að jafnaði fimm klukkustundum á viku í heimavinnu. En er öll þessi vinna bara tímaeyðsla? Mark Barnes, fyrrverandi kennari og rithöfundur, segir reynslu sína af kennslu og vinnu með kennurum hafa fullvissað sig um að heimavinna auki ekki þekkingu barna.

Í samtali við fréttavefinn Quartz segir Barnes að heimavinna gefi nemendum enga valkosti eða tækifæri til að hafa áhrif og að þeir viti sjaldan hvað þeir séu að gera. Afleiðingarnar séu þær að foreldrar þurfi að lokum að aðstoða barnið við heimavinnuna eða gera hana sjálfir. Um leið kulni áhugi barnsins.

„Lætur börn hata að læra“

„Mesta hættan og vandamálið sem felst í heimavinnu er að hún lætur börn hata að læra,“ segir Barnes. „Það er ekkert verra í menntaheiminum en að missa börn því við erum að bæla niður forvitni þeirra.“

Við lok tuttugu ára kennsluferils síns bannaði Barnes heimavinnu. „Allt í einu nutu nemendur mínir kennslustundanna og urðu virkilega áhugasamir og sjálfstæðir í náminu sínu.“

Barnes hefur að leiðarljósi kenningar Alfie Kohn, sem skrifaði bókina „The Homework Myth“ og er mikilsmetinn rithöfundur um menntamál. Kohn fullyrðir að neikvæð áhrif heimavinnu séu vel þekkt. Jákvæðu áhrifin séu hins vegar goðsögn ein. Heimavinna hafi hvorki í för með sér aukna þekkingu á námsefninu né bæti hún niðurstöður úr prófum. Þá eyði hún dýrmætum tíma sem börn gætu eytt með fjölskyldu og vinum.

Frétt mbl.is: Heimanám umdeilt

Heimavinna er sögð bæta einkunnir í stærðfræði.
Heimavinna er sögð bæta einkunnir í stærðfræði. mbl.is/ÞÖK

Lítill ávinningur fyrir tíu ára og yngri

Tom Sherrington, sem er staðfastur talsmaður heimavinnu, rýndi í rannsókn sem gerð var við Menntarannsóknarstofnunina í Melbourne þar sem niðurstöður 800 sjálfstæðra rannsókna á áttatíu milljón nemendum voru sameinaðar í eina. Komst hann að því að lítill ávinningur væri af heimavinnu fyrir börn tíu ára og yngri en mikill ávinningur að sama skapi fyrir þau sem eldri eru.

Sherrington leggur þó áherslu á að meiri árangur náist eftir því sem heimavinnan sé nákvæmari og skýrari. Þá sé eftirfylgni og þátttaka kennara lykilatriði.

Samkvæmt umfjöllun Quartz hafa aðrar rannsóknir sýnt fram á að heimavinna bæti einkunnir í stærðfræði en hafi lítil áhrif þegar kemur að greinum á borð við ensku, sagnfræði eða almenn vísindi. Þessi smáatriði týnist oft þegar rætt sé um hvort börn þurfi meiri eða minni heimavinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert