Apple ætlar ekki að aðstoða FBI

Syed Farook og Tashfeen Malik við komuna til Chicago í …
Syed Farook og Tashfeen Malik við komuna til Chicago í júlí 2014. AFP

Apple hefur hafnað beiðni dómstóls í Bandaríkjunum um að aðstoða bandarísku alríkislögregluna, FBI, við að brjótast inn í iPhone-síma sem annar þeirra sem frömdu fjöldamorð í borginni San Bernandino í fyrra notuðu.

„Bandarísk yfirvöld hafa krafist þess að Apple taki fordæmalausa ákvörðun sem mun ógna öryggi viðskiptavina okkar,“ sagði Tim Cook, forstjóri Apple.

Hér má lesa yfirlýsingu Cook. 

Tim Cook, forstjóri Apple
Tim Cook, forstjóri Apple AFP

Frá því í september 2014 hafa upplýsingar á flestum Apple-tækjum, þar á meðal textaskilaboð og ljósmyndir, verið dulkóðaðar þannig að óviðkomandi geti ekki náð í þær.

Aðeins er hægt að nota lykilorð til að ná í upplýsingarnar. Ef tíu misheppnaðar tilraunir eru gerðar mun tækið sjálfkrafa eyða öllum upplýsingunum.

Jafnvel starfsfólk Apple getur ekki  nálgast þessar upplýsingar. Fyrirtækið ákvað þetta eftir uppljóstranir Edwards Snowden varðandi eftirlit stjórnvalda.

iPhone-sími. FBI hefur ekki tekist að brjótast inn í síma …
iPhone-sími. FBI hefur ekki tekist að brjótast inn í síma Farook. AFP

Bandarískur dómari hafði úrskurðað að Apple skyldi veita FBI tæknilega aðstoð með því að gera óvirka aðgerðina á símanum sem veldur því að upplýsingarnar þurrkast út.

Rannsóknin á málinu hefur staðið yfir í tvo mánuði og á þeim tíma hefur FBI ekki tekist að brjótast inn í símann.

Síminn var í eigu heilbrigðisstofnunar San Bernandino-sýslu þar sem annar þeirra sem frömdu árásina, Syed Farook, starfaði.

Farook, sem er bandarískur ríkisborgari, og pakistönsk eiginkona hans Tashfeen Malik skutu fjórtán manns til bana í starfsmannaveislu í desember. Þau voru síðar skotin til bana af lögreglunni.

Bifreiðin sem Malik og Farook voru í þegar þau voru …
Bifreiðin sem Malik og Farook voru í þegar þau voru skotin til bana af lögreglu. AFP

 „Við höfum heitið því gagnvart fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast yfir eins miklar upplýsingar og sönnunargögn og við getum,“ sagði lögmaðurinn Eilieen Decker í yfirlýsingu.

„Þessi ósk okkar er eitt skref í þá áttina, mögulega mjög mikilvægt skref, til að komast að öllu sem við getum varðandi árásina í San Bernandino.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert