David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að þjóðaratkvæðagreiðslan um veru landsins í Evrópusambandinu fari fram 23. júní nk.
Nokkrir ráðherrar í bresku ríkisstjórninni ætla að greiða atkvæði með útgöngu úr ESB og einn þeirra, Michael Gove, dómsmálaráðherra, segir það að styðja Brexit erfiðustu ákvörðun sem hann hefur tekið á stjórnmálaferli sínum. Auk hans eru John Whittingdale, Priti Patel, Theresa Villiers, Chris Grayling og Iain Duncan Smith öll fylgjandi úrgöngu.
Ný skoðanakönnun bendir til þess að 36% kjósendanna séu andvíg aðild Bretlands að ESB en 34% hlynnt. 7% sögðust ekki ætla að kjósa og 23% hafa ekki gert upp hug sinn.
<a href="http://www.telegraph.co.uk/news/newstopics/eureferendum/12166097/david-cameron-cabinet-leave-brexit-EU-referendum-june-23-live.html" target="_blank"><span>Frétt Telegraph</span></a>
Cameron kynnti dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar eftir ríkisstjórnarfund í dag og hann segist ætla að berjast fyrir því að Bretar verði áfram aðildarríki ESB.
Theresa May innanríkisráðherra er ein þeirra sem styðja veru Breta innan ESB en hún segir að ESB sé langt frá því að vera fullkomið en vegna öryggis, varna gegn glæpum og hryðjuverkum, viðskiptum við Evrópu og aðgangur að mörkuðum heimsins væri það hagur þjóðarinnar að vera þar áfram.
<a href="http://www.bbc.com/news/uk-politics-35621079" target="_blank">BBC</a>