Leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, segir að það sé ekkert neikvætt við það að yfirgefa Evrópusambandið og segist hann styðja það að Bretar yfirgefi ESB, Brexit. Þetta er meðal þess sem kom fram í umræðuþættinum Agenda í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi.
Svíþjóðardemókratar eru fylgjandi því að Svíar fylgi í fótspor Breta og það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla meðal sænsku þjóðarinnar um hvort ríkið eigi að yfirgefa ESB.
Aðrir stjórnmálamenn sem tóku þátt í umræðunni í gærkvöldi telja farsælla fyrir Breta að vera áfram í ESB. Jan Björklund formaður frjálslyndra segir að hann telji ESB samstarfið það samstarfsverkefni sem hefur gengið best í sögunni. Hann hvetur til meira samstarfs milli ríkja og er andsnúinn því að dregið verði úr samstarfi ríkja enda þurfi þjóðir að standa saman í stórum verkefnum eins og í baráttunni gegn hryðjuverkum, rússneskum yfirgangi og til að koma í veg fyrir annað efnahagshrun.
Áður hafði Fredrik Reinfeldt fyrrverandi formaður Moderna og forsætisráðherra Svíþjóðar, varað við neikvæðum áhrifum af Brexit fyrir Svíþjóð. Ríkin tvö hafa farið svipaða leið varðandi aðild að bandalaginu, njóta góðs af fríverslun en taka ekki þátt í evrusamstarfinu.
Stjórnarflokkarnir, það er jafnaðarmenn og græningjar styðja áframhaldandi veru Breta í ESB.