Obama tali fyrir ESB-aðild Breta

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er sagður á leið til Bretlands til …
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er sagður á leið til Bretlands til að tala máli áframhaldandi ESB-aðildar landsins. AFP

Breska blaðið The Indepedent heldur því fram að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ætli að koma til Bretlands í næsta mánuði og tala fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Downing-stræti neitar að tjá sig um frétt blaðsins sem það kallar „vangaveltur“.

Heimsóknin á að eiga sér stað undir lok apríl en Obama er á leið til Þýskalands um þær mundir til fundar við Angelu Merkel, kanslara, og til að taka þátt í alþjóðlegri kaupstefnu í Hannover sem er sögð sú stærsta á sviði iðnaðartækni. Þá verða aðeins tveir mánuðir í boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega úrsögn Breta úr ESB en hún á að fara fram 23. júní.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vill sjálfur að Bretar haldi sig innan ESB í kjölfar samningaviðræðna við ráðamenn sambandsins um tengsl Bretlands við það. Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á mununum. Þannig vill 51% vera áfram í ESB en 49% yfirgefa það í samantektarkönnun What UK Thinks.

Frétt The Independent af hugsanlegri heimsókn Obama til Bretlands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert