Meirihluti Breta vill úr Evrópusambandinu ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins ORB sem birtar voru á föstudaginn í breska dagblaðinu Independent.
Samkvæmt niðurstöðunum vilja 52% fara úr sambandinu en 48% vera þar áfram ef aðeins er miðað við þá sem annars vegar eru hlynntir áframhaldandi veru þar eða andvígir henni.
Haft er eftir Johnny Heald, framkvæmdastjóra ORB International, í frétt Reuters að stuðningur við úrsögn úr Evrópusambandinu hafi verið að aukast. Þjóðaratkvæði fer fram um veru Bretlands í sambandinu 23. júní í sumar.
Mjótt er á mununum í skoðanakönnunum en undanfarna mánuði hefur stuðningur við úrsögn úr Evrópusambandinu farið vaxandi. Fleiri kannanir sýna þó enn sem komið er meirihluta fyrir því að vera áfram innan sambandsins.