Bretar verða ekki velkomnir í Evrópusambandinu aftur ef meirihluti kjósenda í Bretlandi greiðir atkvæði með því í þjóðaratkvæði 23. júní að segja skilið við sambandið. Þetta segir Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í viðtali við franska dagblaðið Le Monde. „Liðhlaupum“ yrði ekki tekið með opnum örmum á nýjan leik.
Juncker segir ennfremur í viðtalinu samkvæmt frétt Financial Times að yfirgefi Bretland Evrópusambandið verði það skilgreint sem ríki utan sambandsins og að ekki yrði lögð á það áhersla að veita því sérstaka meðferð umfram önnur slík. Juncker hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að ekki eigi eftir að koma til þess að Bretar yfirgefi Evrópusambandið.