Tveir létu lífið á Everest

Arnold birti þessa mynd af sér á Twitter og tilkynnti …
Arnold birti þessa mynd af sér á Twitter og tilkynnti að hann hefði náð á toppinn. Af Twitter

Tveir fjallgöngumenn sem náðu upp á topp Everestfjalls fyrir helgi létu lífið á leiðinni niður vegna háloftaveiki.

Eric Arnold náði toppnum á föstudaginn en það var hans fimmta tilraun. Arnold var frá Amsterdam og í hópi rúmlega 40 göngumanna sem náðu á toppinn sama dag. Starfsmenn ferðaskrifstofunnar Seven Summit Treks í Katmandú sögðu blaðamönnum að Arnold hefði látið lífið í fjórðu búðum fjallsins en hann hafði verið slappur og kalinn. Nokkrum tímum síðar lést hin ástralaska Maria Strydom en hún var í sama hópi og Arnold. Hún hafði verið með einkenni háloftaveiki áður en hún lést.

Þetta eru fyrstu staðfestu dauðsföllin á Everest á þessu ári. Enn á eftir að ákveða hvort og hvenær lík þeirra verða flutt niður fjallið.

Arnold greindi frá afreki sínu á Twitter á föstudaginn. Nú er búið að loka heimasíðu hans og setja í staðinn minningarmynd.

Strybon var fjármálakennari í Monash-háskóla í Melbourne. Hún var að reyna að klífa sjö hæstu tinda heims með eiginmanni sínum. Hún hafði þegar náð á topp Denali í Alaska, Aconcagua í Argentínu, Mount Ararat í Tyrklandi og Kilimanjaro í Kenía.

Arnold hafði reynt að ná á toppinn 2014 og 2015 en þurft að hætta við vegna jarðskjálfta.

Arnold sagði í samtali við hollenska fjölmiðla á síðasta ári að það hefði verið æskudraumur hans að komast upp á topp Everest. „Ég var alltaf með mynd af Everest fyrir ofan rúmið mitt,“ sagði hann.

Frétt USA Today.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka