„Vill Boateng ekki sem nágranna“

Þýski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu Jerome Boateng.
Þýski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu Jerome Boateng. AFP

Háttsettur félagi í þýska stjórnmálaflokknum AfD, Alexander Gauland, segir í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung í dag að Þjóðverjar vilji ekki þýska landsliðsmanninn í knattspyrnu Jerome Boateng sem nágranna. Vísaði hann til þess að faðir Boatengs er frá Gana en sjálfur er hann alinn upp í Þýskalandi.

„Fólki finnst hann góður knattspyrnumaður en það vill Boateng ekki sem nágranna,“ sagði Gauland í viðtalinu. Fram kemur í frétt AFP að ummælin hafi þegar kallað á hörð viðbrögð í Þýskalandi og verið fordæmd, meðal annars af Reinhard Grindel, forseta þýska knattspyrnusambandsins. Sagði hann Boateng, sem er 27 ára gamall, vera frábæran leikmann og yndislegan einstakling sem væri fyrirmynd margs ungs fólks.

Framkvæmdastjóri þýska landsliðsins, Oliver Bierhoff, sagði þetta ekki í fyrsta sinn sem slík ummæli hefðu verið látin falla og þau væru ekki svaraverð. „Fólk sem lætur slíkt fara frá sér er einfaldlega að gjaldfella sig sjálft.“ Dómsmálaráðherra Þýskalands, Heiko Maas, hefur sagt ummælin óviðunandi og skammarleg. AfD er þekktur fyrir harða stefnu í innflytjendamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka