Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, John Major, gagnrýnir harðlega samflokksmenn sína sem berjast fyrir því að Bretar segi sig úr Evrópusambandinu. Hann segir þá sem tali fyrir úrgöngu beita fyrir sig blekkingum í baráttunni.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Bretlands að Evrópusambandinu fer fram 23. júní, en fylkingarnar hafa skipst á fullyrðingum um afleiðingarnar fyrir efnahag landsins ef úr verður að Bretar segi sig frá Evrópusamstarfinu. Mjótt er á mununum í skoðanakönnunum og er talið að úrslitin ráðist á því hvort kjósendur telji efnahag landsins betur borgið innan eða utan sambandsins.
Major sakar nú Kjósum úrgöngu (e. Vote Leave), hóp undir forystu íhaldsmanna sem berst fyrir úrsögn úr ESB, um að leggja fram fullyrðingar um efnahagslegar afleiðingar sem séu „í grundvallaratriðum óheiðarlegar“.
Liðsmenn Vote Leave hafa sagt að 300.000 störf gætu skapast með nýjum viðskiptasamningum sem Bretar gætu gert utan sameiginlegs markaðar Evrópusambandsins. Ríkissjóður gæti einnig lagt yfir 100 milljónir punda aukalega í heilbrigðiskerfið sem hefðu annars farið í framlög til ESB.
David Cameron forsætisráðherra sem vill að Bretar verði um kyrrt, sakaði úrgöngumenn þá um að „skrifa ávísanir sem þeir vita að ekki er innistæða fyrir“.
Major bætti um betur og fullyrti í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að félagar hans í Íhaldsflokkinum legðu fram hluti sem þeir vissu að væru rangir.
„Þetta er svikul herferð. Ég er reiður yfir því hvernig verið er að blekkja bresku þjóðina,“ sagði Major, sem var forsætisráðherra frá 1990 til 1997.
Þá sagði hann áherslu þeirra sem vildu ganga úr Evrópusambandinu á að draga úr fjölda Evrópubúa sem kæmu til Bretlands til að vinna nálgast það að vera „sóðalega“.