Donald Trump styður útöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, að því er fram kemur í viðtali sem Sunday Times tók við hann og birti í dag. Telur hann hag Breta betur borgið utan sambandsins.
„Persónulega myndi ég frekar hallast að því að yfirgefa sambandið, af mörgum ástæðum, eins og að minnka skriffinnsku,“ sagði hann í viðtalinu. „En ég er ekki breskur ríkisborgari. Þetta er bara mín skoðun.“
Trump, sem er forsetaefni Repúblikanaflokksins í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember, sagðist jafnframt ætla að reyna að halda góðu sambandi við alþjóðlega leiðtoga, þar á meðal David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ef hann yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Cameron hefur gagnrýnt Trump harðlega, sér í lagi hugmyndir hans um að meina múslimum að koma til Bandaríkjanna. Sagði hann hugmyndina „sundrandi, heimskulega og ranga“.
Trump ferðast til Bretlands 24. júní, aðeins degi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um framtíð Breta í Evrópusambandinu, en þar mun hann meðal annars heimsækja tvo golfvelli sem hann á í Skotlandi.