Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í dag að hver sem útkoman yrði í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi á fimmtudaginn, þar sem ákveðið verður hvort Bretar verði áfram innan sambandsins eða ekki, yrðu ráðamenn í Brussel að huga vandlega að framtíð þess.
„Það væri heimskulegt af okkur að hunsa slíkt viðvörunarmerki,“ sagði Tusk samkvæmt frétt Euobserver.com og bætti við að fleiri slík viðvörunarmerki um óánægju innan Evrópusambandsins væru fyrir hendi. Hann sagði sambandið þegar vera að undirbúa sig fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðisins og mögulegar efnahagslegar afleiðingar.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að ljóst væri að mjótt væri á mununum. Sagði hann að ef Bretar segðu skilið við Evrópusambandið en vildu svo seinna ganga þar inn aftur yrði landið að gerast aðili að evrunni og Schengen-svæðinu sem væri óásættanlegt.