Biðla til Breta að vera áfram í ESB

Kosningabaráttan er nú í hámarki, enda verður gengið til kosninga …
Kosningabaráttan er nú í hámarki, enda verður gengið til kosninga á morgun. AFP

Forstjórar og framkvæmdastjórar meira en helmings allra stærstu fyrirtækja Bretlands hvöttu í dag Breta til að velja að vera áfram hluti af Evrópusambandinu, en tæpur sólarhringur er nú þar til Bretar ganga til atkvæðagreiðslu um það hvort landið eigi að segja sig úr ESB.  

Yfirmenn tæplega 1.300 fyrirtækja, m.a. yfirmenn 51 fyrirtækis sem er á lista FTSE-vísitölunnar yfir 100 efstu fyrirtæki landsins, skrifuðu undir opið bréf sem birt var í dagblaðinu Times um að það myndi valda „efnahagslegu áfalli“ ef Bretland gengi úr ESB.

Richard Branson, yfirmaður Virgin-flugfélagsins, og bandaríski fjölmiðlarisinn Michael Bloomberg eru á meðal þeirra sem ljá beiðninni nafn sitt.

„Ef Bretland gengur úr ESB mun það fela í sér óvissu fyrir fyrirtæki okkar, minni viðskipti við Evrópu og færri störf,“ stóð í bréfinu en samtals eru yfirmenn fyrirtækjanna sem undirrituðu bréfið með um 1,75 milljónir manna í vinnu hjá sér.

„Ef Bretar kjósa að vera áfram í ESB felur það hið gagnstæða í sér: aukið öryggi, aukin viðskipti og fleiri störf. ESB-aðild kemur sér vel fyrir viðskiptalífið og breskt atvinnulíf.“ Minni fyrirtæki og starfsmenn þeirra væru aukinheldur einkum viðkvæm fyrir því efnahagsáfalli sem úrganga úr ESB gæti valdið.

Í gær voru það hins vegar yfirmenn 100 lítilla fyrirtækja sem ljáðu opnu bréfi, sem birt var í götublaðinu Sun, nafn sitt og hvöttu þeir Breta til að ganga úr ESB.

„ESB er ekki lengur bara viðskiptasamningur. Það er verkefni sem snýst um að búa til umfangsmikið stjórnmála- og efnahagssamband,“ sagði í bréfi þeirra. „Við teljum að margar af hugmyndum Evrópusambandsins þjóni ekki bestu hagsmunum breskra fyrirtækja eða Breta.“ Reglugerðir ESB séu litlum og meðalstórum fyrirtækjum stöðug hindrun.

Bæði Sun og Times eru hluti af fjölmiðlaveldi Rupert Murdochs og hafa þau tekið andstæðan pól í hæðina í deilunni um veru Breta í ESB. Sun hefur stutt að Bretar segi skilið við sambandið en Times telur Bretum betur borgið innan ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert