Tvær nýjar skoðanakannanir sýna fleiri Breta hlynnta því að segja skilið við Evrópusambandið en þá sem vilja að Bretland verði áfram innan þess. Þjóðaratkvæði fer fram á morgun um það hvort Bretar yfirgefi sambandið eða ekki.
Fram kemur í frétt AFP að samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar fyrirtækisins Opinium vilji 45% að Bretland segi skilið við Evrópusambandið en 44% vilja landið áfram innan sambandsins. Könnun fyrirtækisins TNS sýni 43% hlynnt því að yfirgefa Evrópusambandið en 41% hlynnt áframhaldandi veru innan þess.
Skoðanakannanir hafa verið mjög misvísandi og annað hvort sýnt fleiri naumlega hlynnta því að segja skilið við Evrópusambandið eða á hinn veginn. Fáir treysta sér til þess að segja til um það hvernig þjóðaratkvæðið kunni að fara en þar kann kjörsókn að skipta miklu máli.