Gengi breska pundsins hefur fallið í kjölfar þess að tölur frá fyrstu kjördæmunum fóru að berast í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Pundið er nú komið niður fyrir 1,45 dollara en var áður farið upp í 1,50 dollara. Fréttir berast einnig af því að fleiri séu farnir að veðja á úrsögn úr Evrópusambandinu hjá veðbönkum.
Pundið hafði styrkst mjög fyrr í dag í kjölfar síðustu skoðanakannana sem bentu til þess að meirihluti yrði fyrir því að Bretar yrðu áfram innan sambandsins. Hins vegar hafa fyrstu tölur, þá einkum frá borginni Sunderland, bent til þess að niðurstaðan kunni þrátt fyrir allt að verða sú að Bretar segi skilið við Evrópusambandið. Þar reyndist mun meiri stuðningur við úrsögn úr sambandinu en búist hafði verið við eða 61,3% miðað við síðustu spá upp á 53,6%.
Flestir virðist þó enn vera á því að niðurstaða þjóðaratkvæðisins verði sú að Bretar verði áfram innan Evrópusambandsins. Þó líklega með naumum meirihluta. Aðrir benda á að enn sé of snemmt að fullyrða neitt í þeim efnum. Enn geti niðurstaðan farið á hvorn veginn sem er. Þegar talin hafa verið atkvæði í átta kjördæmum af 382 er 50,7% fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu en 49,3% styðja áframhaldandi veru í sambandinu.
Búist er við að endanlegar niðurstöður liggi fyrir í fyrramálið.