David Cameron ætlar að stíga til hliðar sem forsætisráherra Bretlands eftir að meirihluti Breta kaus að yfirgefa Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í gær.
Cameron sagðist þeirrar skoðunar að rétt væri að hann segði af sér embætti, enda hafi hann tekið þátt í kosningabaráttunni af miklum krafti og hvatt Breta til að vera áfram í ESB. Breska þjóðin hafi hins vegar verið á annarri skoðun.
„Ég er stoltur af því að hafa verið forsætisráðherra Breta sl. sex ár og ég er stoltur af því sem hefur áunnist,“ sagði Cameron. Hann hafi hins vegar einnig þurft að taka erfiðar ákvarðanir, m.a. að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB.
Cameron sagðist hins vegar ekki ætla að segja af sér samstundis, heldur muni hann vinna að því á næstunni að róa markaði og aðildarríki ESB vegna úrslita kosninganna.
„Fólk víða um heim hefur fylgst með kosningunum og ákvörðun Breta. Ég vil fullvissa erlenda markaði um að efnahagur Bretlands stendur traustum fótum og ég vil líka fullvissa þá Breta sem búa í löndum ESB, sem og ESB borgara sem búa í Bretlandi að engar breytingar muni taka gildi strax.“
Vilja þjóðarinnar verði að virða. „Þetta er ekki ákvörðun sem var tekin léttilega, ekki hvað síst af því svo margt var sagt af svo mörgum mismunandi stofununum og samtökum um mikilvægi þessarar ákvörðunar,“ sagði Cameron.
"Við verðum nú að undirbúa viðræður við ESB og þær umræður þurfum við að fara í ásamt stjórnvöldum í Skotlandi, Wales og Norður Írlandi til að tryggja að hagsmunir allra hluta Bretlands séu tryggðir.
Þetta mun þó umfram allt krefjast sterkrar stjórnar,“ sagði Cameron og kvaðst ekki telja rétt að hann leiði þær viðræður
Bretar þurfi nýjan forsætisráðherra og hann taki í síðasta lagi við störfum á landsfundi Íhaldsflokksins í nóvember.
„Ég tel rétt að það verði nýr forsætisráherra sem síðan ákveður hvenær 50. grein Lissabon-sáttmálans verði virkjuð,“ sagði Cameron á fundi með fréttamönnum rétt í þessu.