„Gríðarlegt áfall“ fyrir ESB

Bretar og Evrópusambandið þurfa nú að ná samkomulagi um skilmála …
Bretar og Evrópusambandið þurfa nú að ná samkomulagi um skilmála úrsagnarinnar. Það gæti tekið langan tíma. AFP

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að fram undan séu erfiðar samningaviðræður á milli Breta og Evrópusambandsins. Bretar þurfi að gera nýjan viðskiptasamning við sambandið áður en þeir ganga formlega úr því, en hins vegar muni þeir ekki fá neitt gefins.

„Menn munu komast að samkomulagi. Það eru hagsmunir beggja megin borðsins fyrir því að ná góðum viðskiptasamningi. En þetta getur orðið flókið, því Bretar leggja mikla áherslu á að takmarka flæði fólks yfir landamæri, sem Evrópusambandinu er mjög annt um að halda,“ segir Baldur í samtali við mbl.is.

Hann segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í gær, þar sem um 51% Breta samþykkti að segja skilið við sambandið, skapi mikla óvissu fyrir Evrópusambandið, Bretland og viðskiptatengsl Íslands við Bretland.

Bretar þurfi nú að gera nýjan viðskiptasamning við ESB og eins fjöldann allan af fríverslunarsamningum við önnur ríki, sem nú eru í gildi fyrir hönd Breta á vettvangi Evrópusambandsins.

Þetta tvennt muni taka langan tíma.

Niðurstaðan ekki endilega óvænt

Aðspurður segir Baldur að niðurstaðan komi ekki endilega á óvart. Skoðanakannanir síðustu daga hafi sýnt að ekki var marktækur munur á milli fylkinganna. „Þeir sem eru líklegastir til þess að mæta á kjörstað eru hvítir, eldri kjósendur Íhaldsflokksins. Þeir eru líka líklegastir til þess að greiða atkvæði gegn áframhaldandi aðild. Og svo bætist við að það var mikil kjörsókn í þeim kjördæmum þar sem menntunarstig er lægra. Og þá virðist sem hluti af kjósendum Verkamannaflokksins, um þriðjungur, hafi kosið gegn áframhaldandi aðild,“ nefnir hann.

Mikill stuðningur hafi verið við úrsögn Breta í Wales og Englandi, að höfuðborginni Lundúnum undanskilinni, þar sem sex af hverjum tíu kjósendum kusu með áframhaldandi veru. „Stuðningurinn í London er ekki nógu mikill til þess að vega upp á móti þessum mikla stuðningi annars staðar í Englandi og Wales.“

Einnig sé athyglisvert að yngri kjósendur kjósi frekar að Bretar verði áfram í sambandinu. „Ein könnun sýndi að 75% fólks á aldrinum 18 til 24 ára vildi vera áfram í Evrópusambandinu, á meðan mikill meirihluti elstu kjósendanna vildi segja skilið við sambandið. Það eru algjör skil á milli kynslóða hvað þetta varðar. Og stéttaskiptingin í Bretlandi kemur jafnframt skýrt fram í þessum kosningum.“

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað gerist í Skotlandi?

Baldur segir að nú vakni einnig spurningar um hvað muni gerast í Skotlandi og Norður-Írlandi, þar sem meirihluti kjósenda styður áframhaldandi Breta að Evrópusambandinu. Sér í lagi sé mikill munur á fylkingunum í Skotlandi.

„Skoskir þjóðernissinnar bíða nú færis að boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. En ég tel að þeir muni ekki gera það, nema að fylgi við sjálfsætt Skotland fari að aukast í skoðanakönnunum og að efnahagurinn styrkist í landinu. Skoskir þjóðernissinnar vilja ekki boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu og tapa henni,“ útskýrir hann.

Eins verði vaxandi kröfur uppi á Norður-Írlandi um að landið sameinist Írlandi.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, hyggst segja af sér.
David Cameron, forsætisráðherra Breta, hyggst segja af sér. AFP

Erfitt að segja til um langtímaáhrifin

Spurður um áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar á framtíð Evrópusambandsins segist Baldur telja að hún muni leiða til aukinnar umræðu um kosti og galla sambandsins í öllum aðildarríkjunum.

„Í öðru lagi mun þetta leiða til þess að kallað verður eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild einhverra ríkja að sambandinu. Við sjáum að það hefur þegar verið gert í til dæmis Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð.

Í þriðja lagi áformar Evrópusambandið að koma á nánari samvinnu í varnar- og öryggismálum og eins efnahagsmálum á meðal evruríkjanna. Það átti að kynna tillögur í þá veru á næstu dögum eða vikum. Ég held að menn muni aðeins halda að sér höndum og meta stöðuna áður en þeir gera það,“ segir Baldur.

Eins gæti stuðningur aukist við þau ríki Evrópusambandsins sem vilja takmarka straum innflytjenda til sambandsins.

Baldur telur erfitt að segja til um hvaða langtímaáhrif úrsögn Breta muni hafa á Evrópusambandið. 

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Evrópusambandið og eins Evrópuhugsjónina um að öll ríki Evrópu vinni saman að efnahagslegum framförum og pólitískum stöðugleika og friði í álfunni.“

Líklegt þykir að Boris Johnson verði næsti forsætisráðherra landsins.
Líklegt þykir að Boris Johnson verði næsti forsætisráðherra landsins. AFP

Bretar „erfitt aðildarríki“

Hins vegar verði einnig að hafa í huga að Bretar hafi lengi verið erfitt aðildarríki, ef svo má að orði komast. Baldur segir þá hafa verið mjög trega til þess að vinna náið saman með hinum aðildarríkjunum og sjaldan viljað koma á nánari samruna, hvort sem litið sé til efnahagsmála eða varnar- og öryggismála.

„Því gæti ef til vill eftir nokkur ár orðið einfaldlega auðveldara fyrir þau ríki sem eftir eru að ná sátt um nánari samvinnu. Það gæti til dæmis átt við um efnahagsmálin og jafnvel um varnar- og öryggismálin.

En ég held að meginþorri stjórnmálamanna sem eru við stjórnvölinn í ríkjum Evrópusambandsins muni á næstu mánuðum halda að sér höndum. Menn munu ekki kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum á næstu misserum, heldur halda að sér höndum, meta stöðuna og sjá hvað kemur út úr samningaviðræðum Breta við Evrópusambandið,“ nefnir Baldur.

AFP

Cameron axlar ábyrgð

Eins og kunnugt er tilkynnti David Cameron, forsætisráðherra Breta, í morgun að hann hygðist segja af sér. Hann barðist harðlega fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu. 

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Cameron og honum er í raun ekki stætt í embætti eftir þetta. Það er svo sterk hefð í Bretlandi að ef menn tapa í kosningum, þá segja þeir af sér. Menn axla ábyrgð. Og þó svo að Cameron hafi sagt fyrir kosningarnar að hann ætlaði ekki að segja af sér ef hann tapaði, þá er það sem menn gera almennt í Bretlandi.

Hann axlar þá ábyrgð að hafa tapað kosningunum og sá sem er líklegastur til þess að taka við af honum er Boris Johnson, leiðtogi þeirra sem vildu ganga úr sambandinu.“

Breski Íhaldsflokkurinn er að mati Baldurs verulega laskaður eftir kosningarnar – klofinn í herðar niður.

Málið sé einnig erfitt fyrir Verkamannaflokkinn. „Þó að nokkur hluti stuðningsmanna hans studdi úrsögn, sér í lagi fólk sem er minna menntað. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er ekki í sterkri stöðu eftir kosningarnar, að hafa ekki náð fleiri kjósendum með sér. Þetta verður ástæða fyrir einhverja innan flokksins að kalla eftir afsögn hans“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert