„Látum ekki taka Evrópu frá okkur“

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Þýski utanríkisráðherrann Frank-Walter Steinmeier sagði í dag að Evrópusambandið myndi lifa af áfallið í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi þar sem samþykkt var að segja skilið við sambandið. Þetta kemur fram í frétt AFP.

„Ég er sannfærður um að ríki Evrópusambandsins senda frá sér skilaboð um að við látum engan taka Evrópu frá okkur,“ sagði ráðherrann við blaðamenn áður en hann hélt á fund utanríkisráðherra ríkja sambandsins þar sem rætt verður um niðurstöður þjóðaratkvæðisins.

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, kallaði eftir því að viðræður við Breta um úrsögnina færu fljótt fram. Sagði hann mikinn þrýsting verða á David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins á þriðjudag að flýta ferlinu.

Cameron tilkynnti afsögn sína í gær eftir að hafa lotið í lægra haldi í þjóðaratkvæðinu en hann barðist fyrir áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. Hann sagði af því tilefni að það yrði í verkahring arftaka hans að hefja viðræður við sambandið um úrsögn Breta. Hann myndi láta af embætti á landsfundi Íhaldsflokksins í október.

Steinmeier sagði Evrópusambandið hafa verið árangursríkt þegar kæmi að friði og stöðugleika og að mikill vilji væri til þess innan sambandsins að standa vörð um og styrkja það. Ekki mætti missa sig í móðursýki vegna úrsagnar Bretar. Taka yrði á málinu af yfirvegun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert