Vilja kjósa aftur um Brexit

Yfir tvær milljónir hafa tekið þátt í rafrænni undirskriftasöfnun um …
Yfir tvær milljónir hafa tekið þátt í rafrænni undirskriftasöfnun um að endurtaka skuli Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna. AFP

Yfir tvær milljónir Breta hafa skrifað undir áskorun þar sem farið er fram á að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Bretlands að Evrópusambandinu. Niðurstöður Brexit-atkvæðagreiðslunnar síðastliðinn fimmtudag hafa valdið nokkrum titringi en mjótt var á munum þegar 51,9% Breta kusu að yfirgefa sambandið gegn 48,1% þeirra sem vildu vera áfram í sambandinu. Kjörsókn var 72,2%. Fréttastofan AFP greinir frá þessu.

Undirskriftasöfnunin fer fram rafrænt en heimasíðan sem heldur utan um undirskriftasöfnunina lá niðri um stund vegna álags. 

„Undirritaðir skora á ríkisstjórn hennar hátignar að innleiða þá reglu, að ef atkvæði því fylgjandi að annaðhvort vera eða fara úr sambandinu hlýtur innan við 60% atkvæða og kjörsókn innan við 75%, skuli halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í áskoruninni.

Flestir þeirra sem undirritað hafa áskorunina eru íbúar Edinborgar og London, en í báðum borgum kaus meirihluti með áframhaldandi veru í sambandinu.

Ekkert segir til um það í breskum lögum að tilskilið hlutfall atkvæða þurfi til að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu teljist gild. Þá segja reglur Evrópusambandsins ekkert til um það þegar ríki, sem hafið hefur samningaviðræður um að slíta samstarfi, skiptir um skoðun eða dregur til baka ákvörðun sína samkvæmt 50. grein Lissabon-sáttmálans.

John Curtice, prófessor við Strathclyde-háskóla, hefur greint tvennar mögulegar kringumstæður þar sem til greina kæmi að endurtaka atkvæðagreiðsluna. Hann segir þó að undirskriftasöfnunin muni ekki hafa nein áhrif sem stendur nema efni hennar verði formlega rætt á þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka