Liggur ekki á að ganga úr ESB

Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri London og líklegur arftaki Davids Cameron.
Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri London og líklegur arftaki Davids Cameron. AFP

Boris Johnson, einn helsti baráttumaðurinn fyrir úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu, segir nú ekkert liggja á útgöngunni. Fullyrðir hann að réttindi þegna Evrópusambandslanda í Bretlandi verði tryggð sem og Breta sem búa í Evrópu eftir úrgönguna.

„Eina breytingin, og hún verður ekki gerð í neinum flýti, er að Bretland mun losa sig úr viðjum ótrúlegs og ógegnsæs reglugerðakerfis Evrópusambandsins,“ skrifar Johnson, sem talinn er líklegasti eftirmaður Davids Cameron forsætisráðherra, í grein í Daily Telegraph í dag.

Bretar muni áfram geta farið og unnið, búið, ferðast, lært, keypt hús og sest að í löndum Evrópusambandsins eftir úrgönguna sem 52% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykktu á fimmtudag. Áfram verði böndin sterk á milli Bretlands og Evrópu.

Hvatti hann jafnframt stuðningsmenn úrgöngu úr ESB til að græða sárin sem hafi myndast í kosningabaráttunni og sættast við þá sem vilja halda sig innan sambandsins. Andrúmsloft ótta í landinu hafi hins vegar orðið til vegna þess að neikvæðar afleiðingar úrgöngu hafi verið ýktar á sama tíma og kostirnir hafi verið hunsaðir.

Þá gerði hann lítið úr bollaleggingum um að Skotar muni sækjast eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði en afgerandi meirihluti þeirra hafnaði úrgöngu úr Evrópusambandinu. Telur Johnson enga stemmningu fyrir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

„Það gefur auga leið að við erum mun betri saman í að mynda nýtt og betra samband við ESB sem byggist á frjálsum viðskiptum og samstarfi frekar en alríkiskerfi,“ skrifar Johnson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert