Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, segir að Bretar geti ekki hafið viðræður um fríverslunarsamning við sambandið fyrr en þeir hafi yfirgefið það að fullu.
Í kjölfar brotthvarfs Bretlands úr sambandinu yrði ríkið „þriðja ríki“ í skilningi Evrópusambandsins. Það þýði að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, myndu gilda um viðskipti Breta þar til samkomulag næðist um nýjan samning.
Hún bendir á að það hafi tekið Evrópusambandið og Kanada sjö ár að komast að samkomulagi um fríverslunarsamning sín á milli.
Öll aðildarríki Evrópusambandsins þurfi jafnframt að samþykkja fríverslunarsamninginn við Kanada, þannig að gildistaka hans gæti tafist um eitt til tvö ár til viðbótar.
Í samtali við breska ríkisútvarpið lagði Malmström mikla áherslu á að leiðtogar Breta og Evrópusambandsins ættu fyrst að komast að samkomulagi um hvernig framtíðartengslum sínum yrði háttað, eins og 50. gr. Lissabonsáttmálans gerir ráð fyrir, áður en þeir hæfu viðræður um fríverslunarsamning.
Pólitísku viðræðurnar, eins og hún kallar þær, gætu tekið allt að tvö ár.
„Það eru í rauninni um tvenns konar samningaviðræður að ræða. Fyrst yfirgefur maður sambandið og síðan semur maður um framtíðartengslin, hver sem þau verða,“ sagði hún.
„Þjóðaratkvæðagreiðslan - sem við tökum að sjálfsögðu mið af og virðum - hefur engin lagaleg áhrif.“ Fyrst þyrfti nýr forsætisráðherra Bretlands, hver sem það yrði, að tilkynna Evrópusambandinu formlega um úrsögnina og þá væri hægt að hefja sjálft úrsagnarferlið.
Hún sagðist vera mjög leið yfir því að Bretar, sem hefðu ávallt staðið vörð um grundvallargildi Evrópusambandsins um frjáls viðskipti, hefðu nú ákveðið að yfirgefa sambandið.