Úrganga Breta úr Evrópusambandinu vekur áhyggjur af hagvexti í heiminum til lengri tíma litið, að sögn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna. Hann telur úrsögn Breta geta fryst möguleikana á fjárfestingum í Bretlandi eða allri Evrópu.
Á fundi með leiðtogum Kanada og Mexíkó í Ottawa hvatti Bandaríkjaforseti breska og evrópska leiðtoga til þess að tryggja að brotthvarf Breta úr sambandinu fari fram á skipulagðan hátt. Til skamms tíma litið bendi undirbúningur seðlabanka og fjármálaráðherra til þess að heimshagkerfið haldi sjó.
Obama bætti hins vegar við að raunverulegar spurningar vakni um hagvöxt til lengri tíma litið ef Bretar láta verða af því að ganga úr ESB.
„Á tímum þegar hagvaxtartölur á heimsvísu voru veikburða fyrir þá hjálpar þetta ekki,“ sagði Obama.
Hvatti hann jafnframt til stillingar. Ferlið við úrsögn Breta verði erfitt en það þurfi ekki að eiga sér stað í óðagoti. Sagðist hann hafa rætt við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem hafi sagt að hún vildi láta úrsögn Breta virka en hygði ekki á hefndir gegn þeim.