Hópur fólks er nú samankominn í miðborg Lundúna til þess að taka þátt í mótmælum þar sem þess er krafist að Bretland yfirgefi ekki Evrópusambandið eins og niðurstaðan varð í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í hópi mótmælenda má sjá skilti með áletruninni: „Un-Fuck My Future“, „No Brex Please, We're British“ og öllu fyndnara skilti með mynd af söngkonunni Whitney Houston með áletruninni „I Will Always Love EU“.
Mótmælin voru skipulögð í gegnum Facebook. Á facebooksíðu viðburðarins kom fram að til stæði að halda mótmælunum áfram næstu daga.
The Guardian ræddi við nokkra mótmælendur og voru þeir á einu máli um að hugmyndin um að ganga úr ESB væri galin.
„Ég er hér vegna þess að ég finn fyrir máttleysi, vonleysi og ég hef verið gabbaður,“ segir Mark Riminton, sem starfar sem fjármálaráðgjafi, í samtali við dagblaðið. „Það eina sem mér datt í hug var að mæta og sýna stuðning minn.“
David Lang var annar mótmælandi sem var mikið niðri fyrir. Hann segist vera einn af fáum á sínum vinnustað sem greiddu atkvæði með áframhaldandi aðild að ESB „jafnvel þótt úrsögn úr ESB geti gert vinnuveitanda okkar gjaldþrota á tveimur árum“, eins og hann orðar það.