Vill Breta út sem fyrst

Hollande og Cameron áttu fund í gær en þeir komu …
Hollande og Cameron áttu fund í gær en þeir komu saman til að minnast orrustunnar við Somme. Með þeim á myndinni er Vilhjálmur Bretaprins. AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti hefur sett þrýsting á bresk stjórnvöld um að ganga úr Evrópusambandinu eins fljótt og auðið er; úrsögn þeirra úr sambandinu verði hvorki afturkölluð né frestað og Bretar eigi ekki annan kost en að horfast í augu við afleiðingar nýafstaðinnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hollande lét ummælin falla eftir fund með David Cameron í gær. Hann sagði Breta fyrst nú vera að átta sig á því að það hefði ákveðna kosti að vera innan Evrópusambandsins. „Þeir sem létu freistast af Brexit eru nú farnir að hugsa sinn gang,“ sagði forsetinn við blaðamenn.

Hann sagði að skjót útganga myndi draga úr óvissu og óstöðugleika, sérstaklega hvað varðaði fjármálakerfið og efnahagsmálin. Því hraðar sem ferlið gengi, því betra fyrir Breta.

Afstaða Hollandes er í andstöðu við yfirlýsingar sigurstranlegra leiðtogakandídata Íhaldsflokksins, Michaels Goves og Theresu May, sem segjast ekki munu hefja úrsagnarferlið fyrr en í lok árs.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, virðist hins vegar á sömu skoðun og Hollande og segir æskilegt að Bretar hefji ferlið um leið og nýr forsætisráðherra tekur við af David Cameron í september.

Hann segir útilokað að gengið verði til samningaviðræðna áður og kallar eftir því að bresk stjórnvöld komi hreint til dyranna varðandi fyrirætlanir sínar. „Við megum engan tíma missa, við getum ekki bætt óvissu ofan á óvissu.“

Þá ítrekaði Juncker að ef Bretar vildu eiga aðild að hinum sameiginlega evrópska markaði þyrftu þeir að sætta sig við frjálsa för fólks.

Að því er fram kemur hjá Guardian hafa menn Hollande grunaðan um að taka einarða afstöðu gagnvart Bretum vegna kosninga heima fyrir á næsta ári. Þá eru vonir Frakka sagðar standa til þess að París taki við af Lundúnum sem ný fjármálamiðstöð Evrópu.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka