Kjósa eftirmann Camerons

Andrea Leadsom, Stephen Crabb, Theresa May, Michael Gove og Liam …
Andrea Leadsom, Stephen Crabb, Theresa May, Michael Gove og Liam Fox. AFP

Þingmenn Íhaldsflokksins hófu að greiða atkvæði á milli fimm frambjóðenda sem sækjast eftir því að taka við af David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem tilkynnti um að hann hygðist segja af sér í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild Breta að Evrópusambandinu.

Atkvæðalægsti frambjóðandinn eftir hverja kosningu dettur út og verður kosið á milli frambjóðendanna þar til aðeins tveir standa eftir. Fyrsta kosningin var í dag, sú næsta á fimmtudag og sú síðasta á þriðjudag. Þegar tveir frambjóðendur standa eftir ganga 150 þúsund flokksmenn Íhaldsflokksins til bréfkosningar þar sem þeir kjósa sér formann og eftirmann Camerons sem forsætisráðherra Bretlands.

Theresa May talin líklegust til að taka við af Cameron

Í samantekt AFP um málið segir að Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, sé líklegust til að vinna kosningarnar og taka við af Cameron. Hún gefur sig út fyrir að geta sameinað bresku þjóðina, þá sem vildu úr Evrópusambandinu og þá sem kusu með áframhaldandi veru. Sjálf barðist hún fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 23. júní sl.

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, er talin líklegust til að taka …
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, er talin líklegust til að taka við af David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

May hefur t.a.m. viljað fresta því að virkja 50. ákvæði Lissabon-sáttmálans sem þarf að virkja til þess að formlegt úrsagnarferli Breta úr Evrópusambandinu hefjist. Þá vill hún að Bretar hafi áfram aðgang að innri markaði Evrópusambandsins eftir úrsögnina en þó þannig að hömlur séu settar á frjálst flæði fólks til landsins.

Leiðtogar Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hafa aftur á móti sagt það af og frá að Bretar fái frjálsan aðgang að innri markaði sambandsins á sama tíma og skrúfað er fyrir frjálst flæði fólks á milli landa. Það sé eitt af grunngildum innri markaðarins sem byggir á fjórfrelsinu svonefnda sem vísar til frjáls flæðis vöru, launþega, þjónustu og fjármagns.

Tilkynnt verður um næsta formann Íhaldsflokksins og sigurvegara kosningarinnar 9. september næstkomandi. Ljóst er nú að það verður ekki Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, sem hafði verið orðaður sterklega sem líklegur eftirmaður Camerons. 

Boris tilkynnti aftur á móti um það að hann hygðist ekki bjóða sig fram eftir að Michael Gove, dómsmálaráðherra og bandamaður Johnson í kosningabaráttunni í aðdraganda Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, tilkynnti um sitt eigið framboð. AFP greinir frá því að Johnson hafi snúið nokkrum þingmönnum Íhaldsflokksins gegn Gove.

Boris Johnson gaf ekki kost á sér.
Boris Johnson gaf ekki kost á sér. AFP

Sjálfur lýsti Boris yfir stuðningi við Andreu Leadsom í gær en Andrea er ein þeirra fimm sem sækjast eftir kjöri. Hún barðist ötullega gegn áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu og leggur áherslu á að úrsagnarviðræður Breta taki sem skemmstan tíma til að viðhalda ekki óvissunni um framtíð Bretlands vegna úrsagnarinnar í of langan tíma.

Boris sagði Andreu búa yfir þeim mannkostum sem stjórnmálamaður þarf að búa yfir til að gegna embætti forsætisráðherra auk þess sem hann sagði hana búa yfir þeim drifkraft sem leiðtogi þjóðarinnar þurfi að búa yfir til að geta sameinað ólíkar fylkingar fyrir erfiðar vikur og mánuði fram undan.

Aðrir frambjóðendur eru þeir Stephen Crabb, fyrsti þingmaður Íhaldsflokksins til að bera skegg, og Liam Fox, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands. Crabb barðist fyrir áframhaldandi veru Breta í sambandinu en hefur lýst því yfir að virða beri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og því verði ekki kosið aftur um áframhaldandi aðild á hans vakt. Fox hefur verið baráttumaður úrsagnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert