Hverjir verða í ríkisstjórn May?

Theresa May verður annar kvenkyns forsætisráðherra, á eftir samflokkskonu sinni …
Theresa May verður annar kvenkyns forsætisráðherra, á eftir samflokkskonu sinni heitinni, Margaret Thatcher, sem gegndi embættinu frá 1979 til 1990. AFP

Theresa May mun taka við embætti forsætisráðherra Bretlands af David Cameron annað kvöld. Hennar fyrsta verk verður að skipa ráðherra í nýja ríkisstjórn landsins. Breskir stjórnmálaskýrendur eru ekki sammála um hverja May mun skipa en þeir eru þó á einu máli um að hún á erfitt verk fyrir höndum.

Ekki er til dæmis sjálfgefið að helstu baráttumenn þess að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið, svo sem Andrea Leadsom, Boris Johnson og Michael Gove, eigi öruggt sæti í nýrri ríkisstjórn. Á hinn bóginn vill May ábyggilega ekki skilja þá út undan. Það voru jú þeir sem sigruðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní síðastliðinn.

May hefur til að mynda gefið skýrlega til kynna að hún vilji stofna sérstakt „Brexit“-ráðherraembætti til þess að tryggja að Bretar nái „besta samningnum“ við Evrópusambandið, eins og hún orðaði það í ávarpi fyrir utan breska þinghúsið í gær.

Stjórnmálaskýrendur The Telegraph telja líklegt að háttsettur maður innan breska Íhaldsflokksins, sem hefur umtalsverða reynslu af ráðherrastörfum, verði næsti fjármálaráðherra Bretlands. Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, kemur vel til greina en hann, líkt og May, barðist fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu og hefur starfað náið með henni.

Hann beitti sér þó ekki með virkum hætti í kosningabaráttunni og sagðist meira að segja geta hugsað sér að kjósa að Bretar yfirgæfu sambandið.

Ekki er talið ólíklegt að Philip Hammond verði næsti fjármálaráðherra …
Ekki er talið ólíklegt að Philip Hammond verði næsti fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Gagnrýndi Leadsom fyrir reynsluleysi

Talsmenn útgöngu Breta vilja helst af öllu að Andrea Leadsom, sem gaf einnig kost á sér í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins en dró framboð sitt til baka í gær, verði næsti fjármálaráðherra landsins. Þó er talið ólíklegt að May skipi Leadsom í svona mikilvægt ráðherraembætti. May gagnrýndi Leadsom til dæmis harðlega um helgina fyrir reynsluleysi og sagði henni ekki treystandi til þess að gegna einu af æðstu embættum landsins.

Hins vegar er ekki útilokað að Leadsom fái ráðherraembætti og verði til dæmis næsti viðskiptaráðherra landsins. May vill áreiðanlega ekki skilja hana algjörlega út undan.

Andrea Leadsom dró formannsframboð sitt til baka í gær.
Andrea Leadsom dró formannsframboð sitt til baka í gær. AFP

Verður Gove utanríkisráðherra?

Taldar eru ágætar líkur á því að Michael Gove verði næsti utanríkisráðherra Bretlands. Hann endaði í þriðja sæti í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins og var einn helsti talsmaður þess, ásamt Boris Johnson, að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið. Gove hefur talað fallega um May á undanförnum dögum og lýst yfir eindregnum stuðningi við hana. Hann hefur auk þess starfað náið með henni á undanförnum árum, hún sem innanríkisráðherra og hann sem dómsmálaráðherra.

Næsti utanríkisráðherra mun gegna lykilhlutverki í komandi samningaviðræðum breskra stjórnvalda við leiðtoga Evrópusambandsins um skilmála útgöngunnar og segja stjórnmálaskýrendur því sennilegt að stuðningsmaður útgöngu hreppi það embætti.

Liam Fox, fyrrum varnarmálaráðherra Breta, kemur einnig til greina en hann hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að taka við embætti utanríkisráðherra. Auk Goves studdi hann útgöngu.

Michael Gove.
Michael Gove. AFP

Vill ekki veita Boris of mikil völd

Eins og áður sagði hefur May íhugað að stofna nýtt ráðherraembætti, sérstakt „Brexit“-embætti, en sá ráðherra myndi gegna mikilvægu hlutverki í viðræðunum við Evrópusambandið. Fréttaskýrendur segja að Chris Grayling, kosningastjóri May, sé tilvalinn í það embætti. Hann hefur reynslu af ráðherrastörfum og var auk þess stuðningsmaður þess að Bretar færu úr Evrópusambandinu.

May gæti þó skipað George Osborne, núverandi fjármálaráðherra, í embættið. Þó svo að Osborne hafi barist harðlega fyrir áframhaldandi veru Breta í sambandinu hefur hann mikla reynslu af að takast á við evrópska ráðherra og gæti komið að gagni í viðræðunum við leiðtoga ESB.

En hvað með Boris Johnson, helsta talsmann útgöngu Breta? Það er ekki óhugsandi að May hugsi til hans þegar hún skipar í nýja ríkisstjórn. Sambandið á milli þeirra hefur þó verið nokkuð stirt, en hún gagnrýndi hann oft og mörgum sinnum þegar hann gegndi embætti borgarstjóra Lundúna, og má vart búast við því að hann fái að gegna valdamiklu embætti í ríkisstjórn hennar. Stjórnmálaskýrandi The Telegraph bendir til dæmis á að embætti eins og ráðherra mennta-, menningar- og íþróttamála myndi ekki veita honum of mikil völd en þó fengi hann áfram að vera í fremstu víglínu.

Frétt The Telegraph

Frétt Independent

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert