Theresea May, forsætisráðherra Bretlands, er að móta nýja ríkisstjórn landsins og ljóst að mikil umskipti eru að verða í breskum stjórnmálum. Nokkrir ráðherrar hafa verið tilkynnir í dag og fleiri munu fylgja í kjölfarið.
Hér má sjá lista yfir þá ráðherra sem hafa verið kynntir til leiks:
Fjármálaráðherra: Philip Hammond
Hammond var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davids Camerons frá 2014 til 2016. Hann var áður varnar- og samgöngumálaráðherra landsins. Hann kemur í stað George Osborne.
Utanríkisráðherra: Boris Johnson
Boris Johnson verður utanríkisráðherra í stað Philips Hammonds. Johnson er fyrrverandi borgarstjóri Lundúna sem barðist fyrir brotthvarfi Breta úr ESB.
Innanríkisráðherra: Amber Rudd
Amber Rudd verður innanríkisráðherra í stað Theresu May. Rudd starfaði áður sem orku- og umhverfisráðherra í eitt ár.
Ráðherra sem annast brotthvarf Breta úr ESB: David Davis
David Davis hefur lengi haft efasemdir um þátttöku Breta í Evrópusambandinu. David tapaði árið 2005 fyrir David Cameron í kosningu um formann Íhaldsflokksins.
Varnarmálaráðherra: Michael Fallon
Hinn 64 ára Michael Fallon verður áfram varnarmálaráðherra Bretlands en hann hefur sinnt starfinu frá árinu 2014.
Ráðherra alþjóðlegra viðskipta: Liam Fox
Liam Fox var varnarmálaráðherra árið 2010 en sagði af sér embætti ári síðar. Hann barðist fyrir brotthvarfi Breta úr ESB.