„Traktorinn“ og „bókhaldarinn“ allur

Bernardo Provenzano var handtekinn árið 2006, eftir 40 ár á …
Bernardo Provenzano var handtekinn árið 2006, eftir 40 ár á flótta undan réttvísinni. Hann er sagður hafa framið fyrsta morðið 25 ára. AFP

Mafíuforinginn Bernando Provenzano, kallaður „traktorinn“, lést í dag eftir langvinn veikindi. Provenzano, 83 ára, var „foringi foringjanna“ innan sikileysku glæpasamtakanna, allt þar til hann var handtekinn árið 2006, eftir 40 ár á flótta undan réttvísinni.

Hann lést á heilbrigðisstofnun í San Paolo í Mílanó, þar sem hann gekkst undir meðferð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Provenzano fæddist í þorpinu Corleone og er sagður hafa framið sitt fyrsta morð aðeins 25 ára. Hann fékk gælunafnið „traktorinn“ vegna þess að hann „stráfelldi“ fórnarlömb sín. 

Provenzano var nánasti samstarfsmaður mafíuforingjans „Toto“ Riina, sem var höfuðpaurinn að baki gengjastríðum og morðum á dómurum á 9. áratug síðustu aldar en Provenzano varð óumdeildur leiðtogi ítölsku mafíunnar, Cosa Nostra, þegar Riina var handtekinn 1993.

Aðgerðunum gegn Riina var hrundið af stað í kjölfar morðanna á dómurunum Giovanni Falcone og Paolo Borsellino en þær þóttu stórsigur í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu.

Provenzano er sagður hafa átt þátt í falli Riina; hann hafi komist að samkomulagi við yfirvöld um að svíkja Riina og binda enda á blóðsúthellingarnar, gegn því að hann fengi að vera í friði.

Það dró sannarlega úr ofbeldinu í kjölfarið en hinn nýi foringi einbeitti sér að því að auka áhrif sín innan lögreglunnar.

Provenzano fæddist í sikileyska þorpinu Corleone, en nafnið var gert …
Provenzano fæddist í sikileyska þorpinu Corleone, en nafnið var gert frægt í bókunum og myndunum um Guðföðurinn. Kort/Google Maps

2,5 milljóna evra fundarlaun

Provenzano var einnig kallaður „bókhaldarinn“ vegna þess hversu vel hann fór með fjármál glæpasamtakanna. Það voru þó ekki allir á einu máli um gáfur hans; Luciano Leggio, einn forvera hans, sem var kallaður „prófessorinn“ fyrir að leiðrétta málfar undirmanna sinna, sagði að þrátt fyrir að Provenzano höndlaði skotvopn „eins og Guð“ hefði hann „heila kjúklings“.

Rétt fyrir aldamótin, þegar leit stóð yfir að honum, voru 1,5 milljónir evra sagðar hafa verið lagðar til höfuðs Provenzano en upphæðin stóð í 2,5 milljónum evra árið 2003. Þrátt fyrir það gekk lögreglu illa að ná í skottið á honum.

Einu myndirnar sem til voru af Provenzano voru frá 1959 og yfirvöld áttu engin önnur ráð en að fá sérfræðinga til að ímynda sér hvernig „traktorinn“ hefði elst og beita tölvugöldrum á þær myndir sem þau höfðu undir höndum.

Gæfan snerist hins vegar lögreglu í hag árið 2002, þegar henni barst ábending um að Provenzano hefði gengist undir meðferð gegn blöðruhálskirtilskrabbameini í Marseille. Þar framvísaði hann fölsuðu skilríki en myndin reyndist raunveruleg.

Provenzano, sem var efstur á lista ítölsku lögreglunnar yfir eftirlýsta glæpamenn í marga áratugi, var handtekinn á sveitabýli í Corleone. Hann hlaut nokkra lífstíðardóma en árið 2014 var hann fluttur á sjúkrahús í Mílanó vegna taugavandamála.

Hæstiréttur landsins hafnaði beiðni lögmanna Provenzano um að sleppa honum vegna slæmrar heilsu. Fjölda réttarhalda yfir honum var hins vegar frestað þegar andlegri heilsu hans fór að hraka.

Þegar Provenzano náðist höfðu 2,5 milljónir evra verið lagðar honum …
Þegar Provenzano náðist höfðu 2,5 milljónir evra verið lagðar honum til höfuðs. Hann var kallaður „traktorinn“ vegna þess hvernig hann stráfelldi fólk og „bókhaldarinn“ vegna útsjónarsemi sinnar þegar kom að fjármálum glæpasamtakanna. AFP

„41 bis“

Provenzano er sagður hafa gert sjálfsvígstilraun í fangelsi árið 2012 en var stöðvaður eftir að fangaverðir komu að honum með poka yfir höfðinu.

Mafíuforingjar sæta sérstaklega ströngum skilyrðum í fangelsi samkvæmt lögum sem þekkt eru undir nafninu „41 bis“, en þau kveða á um takmörkuð samskipti við aðra fanga og gesti. Tilgangur umræddra ákvæða er að koma í veg fyrir að foringjarnir haldi áfram að stjórna glæpasamtökum sínum innan úr fangelsinu. Þeir geta aðeins rætt við gesti í gegnum kallkerfi og þykka glerveggi, eða skipt á klukkustundarlangri mánaðarlegri heimsókn og 10 mínútna símtali.

„Dauði Provenzano jafngildir ekki dauða Cosa Nostra,“ sagði blaðamaðurinn og mafíusérfræðingurinn Rino Giacalone í samtali við dagblaðið La Stampa. „En Cosa Nostra hefur breyst; samtökin hafa gefið sig eftirmanni hans sem er á flótta, Matteo Messina Denaro.“

Denaro þessi er sagður hættulegur glaumgosi, sem sé einkar hrifinn af fjárkúgunum, peningaþvætti og konum.

Saksóknarinn Antonio Ingroia, sem hefur látið til sín taka gegn mafíunni, segir of margar ráðgátur munu verða óleystar áfram vegna andláts Provenzano. Hann taki sannleikann og réttlætið með sér í gröfina, og skilji eftir sig blóði drifna slóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert