Boris Johnson, nýr utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gærkvöldi að Bandaríkin „færu fremst í röðina“. Þetta voru fyrstu ummælin sem hann lét falla eftir að Theresa May, nýr forsætisráðherra landsins, skipaði hann óvænt í embættið.
Ummælin beindust að Barack Obama Bandaríkjaforseta sem sagði í aðdraganda Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar að Bretar færu aftast í röð þeirra fjölmörgu þjóða sem leita eftir fríverslunarsamningum við Bandaríkin, gengju þeir úr Evrópusambandinu.
Johnson útskýrði þó ekki ummæli sín nánar.
Hann og Obama elduðu grátt silfur saman í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar en Johnson var ekki alls kostar ánægður með afskipti Obama af málefnum Breta. Skammaðist hann meðal annars út í þá ákvörðun Obama að láta fjarlægja brjóstmynd af Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, úr Hvíta húsinu.
„Einhverjir hafa sagt það vera til marks um vanþóknun hálf-keníska forsetans á breska heimsveldinu sem Churchill varði af kröftum,“ sagði Johnson. Ummælin vöktu mikla reiði.
Sem utanríkisráðherra mun Johnson leika lykilhlutverk í komandi samningaviðræðum breskra stjórnvalda við leiðtoga Evrópusambandsins. Einnig mun hann gegna hlutverki við að leita eftir fríverslunarsamningum við önnur ríki.
Johnson var einn helsti talsmaður þess að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið. Eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir sagðist hann ekki ætla að gefa kost á sér sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins, mörgum að óvörum.
Hann sagði að Bretar hefðu nú stórkostlegt tækifæri til þess að tengjast Evrópu og heiminum á nýjan leik. „Ég er mjög spenntur að vera beðinn um að taka þátt í því.“
Hann hrósaði May jafnframt í hástert og sagðist vera fullkomlega sammála áherslum hennar.
Boris Johnson speaks after being appointed Foreign Secretary by @Theresa_May https://t.co/WtOmHyTtmz
— Sky News (@SkyNews) 13 July 2016