Greinina átti aldrei að nota

AFP

Aldrei var hugmyndin að grein 50 í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins yrði virkjuð líkt og Bretland stefnir nú að því að gera í kjölfar þess að breskir kjósendur samþykktu að yfirgefa sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní. Þetta er haft eftir Giuliano Amato, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfundi greinarinnar í frétt Reuters. Greinin fjallar um það ferli sem fer í gang ef ríki vill ganga úr Evrópusambandinu.

Amato segir að greinin hafi þannig ekki verið sett í sáttmálann til þess að hún yrði notuð heldur einungis til þess að kveða í kútinn gagnrýni frá Bretum um að ekki væri hægt að yfirgefa Evrópusambandið. „Hugmyndin var að það yrði til staðar dæmigerður öryggisventill sem yrði hins vegar aldrei notaður,“ segir hann og líkir greininni við slökkvitæki sem aldrei er notað.

Amato kallar einnig eftir því að Evrópusambandið taki harða afstöðu í fyrirhuguðum samningaviðræðum við Breta um úrsögn þeirra úr því þar sem raunveruleg hætta væri á því að leiðtogi annars ríkis innan sambandsins yrði eins „brjálaður“ og David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og boðaði einnig til þjóðaratkvæðis um veruna innan þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert