Slökkt var á ökklabandi árásarmannsins

Kirkjan í Saint-Etienne-du-Rouvray þar sem gíslatakan fór fram í gær.
Kirkjan í Saint-Etienne-du-Rouvray þar sem gíslatakan fór fram í gær. AFP

Annar þeirra sem tóku fimm manns í gíslingu í kirkju í Frakklandi í gær var þekktur af yfirvöldum og með ökklaband. Slökkt var á ökklabandinu í nokkra klukkutíma á hverjum morgni og nýtti Adel Kermiche tækifærið og lét til skarar skríða. Vaknað hafa spurningar í Frakklandi um hvernig Kermiche tókst að fremja árásina undir eftirliti og af hverju slökkt var á ökklabandinu daglega. 

Hann og hinn árásarmaðurinn létu prest kirkjunnar krjúpa við altarið og skáru hann á háls. Drápið var tekið upp á myndband.

Mennirnir voru báðir skotnir til bana af lögreglu þegar þeir komu út úr kirkjunni og hrópuðu „Allahu akbar“ eða „Guð er mestur“.

Vitað er að Kermiche, sem var 19 ára, hefur tvisvar reynt að fara til Sýrlands, en hann var í kjölfarið dæmdur í stofufangelsi.

Ekki hafa verið gefnar upplýsingar um hinn árásarmanninn. Þá hefur 17 ára drengur verið handtekinn en hann er talinn tengjast málinu.

Stjórnvöld í Frakklandi reyna nú að komast að því hvort árásarmennirnir hafi tilheyrt Ríki íslams, eftir að samtökin lýstu yfir ábyrgð á árásinni og sögðu mennina „hermenn sína“.

Nágranni Kermiches í bænum Saint-Etienne-du-Rouvray, þar sem gíslatakan fór fram, sagði í samtali við fjölmiðla að um leið og hann heyrði af árásinni hefði hann vitað hver bar ábyrgð.

„Mér var sagt frá árás og ég vissi strax að hann var árásarmaðurinn,“ sagði nágranninn, sem vildi aðeins koma fram undir nafninu Redwan.

Presturinn sem lét lífið var 84 ára en þá er 86 ára kirkjugestur alvarlega særður. Gíslatakan stóð yfir í þrjár klukkustundir en nunna náði loks að sleppa og láta lögreglu vita.

Árásarmennirnir gengu síðan út úr kirkjunni, hrópuðu Allahu akbar og notuðu nunnurnar sem mannlega skildi. Náðist að skjóta þá til baka.

Systir Danielle, sem var tekin sem gísl, sagði í samtali við franska fréttastöð að árásarmennirnir hefðu neytt prestinn til þess að krjúpa við altarið. „Hann vildi verja sig,“ sagði Danielle. „En það var þá sem hið hræðilega gerðist.“

Að sögn systur Danielle tóku árásarmennirnir drápið upp á myndband. Síðan fóru þeir upp að altarinu og fluttu eins konar predikun á arabísku. „Þetta var hræðilegt,“ sagði hún.

„Hann var ótrúlegur prestur,“ sagði hún um Jacques Hamel, prestinn sem lét lífið. „Hann var dásamlegur og ljúfur maður.“

Frétt Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert