Obama náðaði 214 fanga

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti náðaði í dag 214 einstaklinga sem höfðu hlotið refsingar fyrir fíkniefnabrot, þar af 67 sem höfðu hlotið lífstíðardóma. Þetta er fjölmennasta náðun sem forseti í Bandaríkjunum hefur ráðist í í meira en eina öld, en venja er fyrir því vestanhafs að forseti náði fanga m.a. með tilliti til breytinga í löggjöf.

Flestir þeirra sem voru náðaðir núna höfðu verið fundnir sekir um ofbeldislausa glæpi, m.a. dreifingu á krakki. Neil Eggleston, ráðgjafi forsetans, sagði þetta vera fjölmennustu náðun frá því allavega árið 1900 og að heildarfjöldi þeirra sem Obama hafi nú náðað í forsetatíð sinni séu orðinn 562. Segir Eggelston það vera meiri fjölda en síðustu níu forsetar þar á undan hafi samanlagt náðað.

Þessi ákvörðun Obama er hluti af áformum hans um að ýta áfram umbótum í réttarkerfinu. Í Bandaríkjunum eru nú hlutfallslega flestir íbúar í fangelsum, en hlutfallið er hæst meðal svartrar og fólks frá rómönsku Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert