Mikill meirihluti Breta telur að virða eigi úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í Bretlandi í júní þar sem kosið var um áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov birti á dögunum. Meirihluti kjósenda kaus með því að segja skilið við sambandið í atkvæðagreiðslunni.
Frétt mbl.is: Vilja frekar svissnesku leiðina
Fram kemur í niðurstöðunum að 69% séu þeirrar skoðunar en 22% telji að bresk stjórnvöld ættu að hafa þjóðaratkvæðið að engu. Þá eru 56% andvíg því að kosið verði aftur um málið en rúmur þriðjungur er því hlynntur. Meirihlutinn telur mikilvægt að semja um viðskipti við Evrópusambandið áður en Bretland yfirgefur sambandið.
Flestir sögðust telja tvíhliða fríverslunarsamning við Evrópusambandið á hliðstæðum nótum og sambandið hefur verið að semja um við Kanada þjóna hagsmunum Bretlands best eða 50% á móti 24% sem töldu slíkt ekki í þágu þeirra.
Frétt mbl.is: Vilja ekki EES-samninginn
Þá sögðu 35% samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem Ísland, Noregur og Liechtenstein eiga aðild að, henta Bretlandi en 38% voru því ósammála. 32% vildu ganga strax úr Evrópusambandinu án þess að semja við sambandið en 44% töldu það ekki í þágu Bretlands.